Tíminn flýgur eins og endranær. Jólahátíðin brátt komin og farin og nýtt ár tekur við með öllum sínum kostum og göllum. Og það er einmitt núna, meðan flestir eru uppteknir við komandi jólavertíð sem þjóðráð er að tryggja sér góða villu eða íbúð á suðrænum slóðum yfir næstu páska.

Þær eru ekki amalegar villurnar sem hægt er að leigja á Spáni
Þær eru ekki amalegar villurnar sem hægt er að leigja á Spáni

Ritstjórn kíkti á nokkra vel valda vefmiðla þar sem gjarnan má finna bæði úrval fasteigna og lágt verð svona heilt yfir á sumarhúsum- og íbúðum á Spáni. Við fundum handa ykkur fimm æði fína staði sem enn eru lausir og kosta ekki formúgu en hafa skal þó í huga að allt gott gengur hratt út enda velflestir í Evrópu í páskafríi á sama tíma og við. Algengt páskafrí í skólum er að þessu sinni frá miðvikudeginum 1. apríl og fram til 7. apríl en sniðugt fólk ætti að geta bætt við tveimur virkum dögum áður plús helgina og þannig náð næstum því tveimur vikum í frí.

Hvers vegna að leggja sig eftir íbúð eða villu þann tíma?

Engin sérstök þörf á því en okkar reynsla er að yfir páskana reyna margar fjölskyldur að vera saman eins og hægt er og er ekki barasta besta mál ef familían plús jafnvel afi og amma geta verið saman í sól og sælu við sendna strönd yfir þennan tíma. Nú eða bara ástfangið par sem vill elskast út af fyrir sig í sundlauginni eða stórfjölskyldan sem vill spara og gera hlutina sjálf.

Hver sem ástæðan getur verið eru hér fimm fasteignir sem lausar eru á fínum stöðum á Spáni þegar þetta er skrifað.


PUEBLO TRANQUILO

Örskammt frá hinum gamla og misgóða bæ Marbella sem margir þekkja frá gamalli tíð er að finna þetta hreint ágæta kot með lítill sætri verönd og aðgengi að sundlaug. Hér komast fjórir í rúm og börnin gætu sofið á sófum ef fullorðnir eru fleiri en tveir. Eðal staðsetning og ekki ýkja langt í heilllandi strönd Costa del Sol. Verð í viku yfir páskana 135.000 krónur.

VILLA TORRENT

Glæsivilla í smábænum Torrent sem er í raun ekki annað en úthverfi hinnar eiturskemmtilegu borgar Valencia. Húsið stendur í litlum dal þar sem ávaxtatré setja svip á nágrennið en er jafnframt laust við ys og þys frá hraðbrautum og næturlífi. Hér komast átta fyrir í einu og prísinn fyrir viku yfir páska aðeins 114.000 krónur.

VILLA MOJACAR

Mojacar er fínasti strandbær og einn þeirra sem Spánverjar sjálfir sækja stíft og öllu minna er af fólki annars staðar frá. Hér nánast í göngufæri á fína ströndina er þessi villa sem hýsir sex alls og er vel lokuð af svo fólk hafi frið ef svo ber undir. Aðgangur að fínni sundlaug í kaupbæti. Vikuleigan yfir páskana 125.000 krónur.

VILLA CANUTA MAR

Glæsilegt einbýlishús í bænum Calpe sem einhverjir ættu að þekkja enda ferðir þangað verið seldar hérlendis um hríð. Bærinn ágætur þó ekki sé kannski mikið um að vera en í þessu sloti er nóg við að hafa. Sér sundlaug og eðal verönd plús nokkur útsýn til hafs. Hér gista auðveldlega sex manns og fer vel um alla. Verðmiðinn í byrjun apríl 117.000 krónur.

VILLA SITGES

Aldrei er verra að vera í nánd við eina af skemmtilegri borgum heims Barcelona. Sú er aðeins í rúmlega hálftíma fjarlægð frá strandbænum Sitges en í tíu mínútna fjarlægð þaðan má finna allgóða villu með sér sundlaug og ágætri 260 fermetra verönd plús garð. Villa þessi aðeins inni í landi umkringd vínviði bænda héraðsins. Hér komast átta manns fyrir með góðu sem skipta þá á milli sín 220.000 króna reikningum yfir páskana.