Þ að hljómar vart spennandi fyrir þau okkar sem áhuga hafa að lifa aðeins lengur. En hinu megin hnattarins í Darwin í Ástralíu er raunverulega hægt að láta sig síga ofan í litla laug hvers eini íbúi er tæplega fimm metra langur hungraður krókódíll.

Spennandi? Nei, held ég haldi mig við barina á Kanaríeyjum…

Vitaskuld hangir sitthvað á spýtu hér því það ferðaþjónustufyrirtæki sem sendir ferðafólk beint í opinn dauðann fengi fljótt á sig heldur lélegan stimpil á TripAdvisor.

Andfætlingar kalla þetta Cage of Death, eða Dauðabúrið á íslenskunni, og góðu heilli er örlítil vörn í boði fyrir þá hjartsterku sem þessu þora. Vörnin samanstendur af örþunnri plexiglerkúlu. Sem líklegast dugar til enda plast sterkt með endemum.

Undir venjulegum kringumstæðum færi risavaxinn krókódíll létt með að brjóta þunnt plexigler en í þessu tilfelli er laugin of lítil til að krókódíllinn geti náð góðri atlögu. Á móti kemur að krókódíllinn atarna er aðeins í sentimetra fjarlægð frá þeim er láta sig hafa þetta ævintýri.

Áhugasamir þurfa eðli máls samkvæmt að ferðast til Ástralíu og punga út tólf þúsund krónum eða svo fyrir 30 mínútna dvöl með krókódílnum. En óvitlaust ef þér finnst vanta aðeins meiri spennu í lífið…