Ýmsir þarna úti íhuga að bóka eða hafa þegar bókað ferðir í sólina á Mallorca í sumar og geta ekki beðið sem eðlilegt er miðað við veðurfar á Fróni að undanförnu. Hér er ein hugmynd fyrir þau ykkar sem bara alls ekki geta beðið eftir júlí eða ágúst.

Ætlar einhver að kvarta yfir þessu útsýni í Alcudia á Mallorca? Mynd Jim McCulloch
Ætlar einhver að kvarta yfir þessu útsýni í Alcudia á Mallorca? Mynd Jim McCulloch

Vikupakki á þriggja stjörnu hóteli á einni bestu strönd Mallorca við Alcudia plús flug frá Íslandi gegnum England og til baka strax í byrjun næsta mánaðar og verðmiðinn á parið samtals kringum 90 þúsund krónur!

Hljómar ótrúlega ekki satt? En ef við segðum þér að sami vikupakki frá Bretlandi kostar manninn 27 þúsund krónur. Flug fram og aftur og dvöl í viku fæst þaðan kringum 50 þúsund krónur íslenskar fyrir tvo saman.

Því miður verðum við hins vegar að komast til Bretlands og þá hægt að grípa flug með Wow Air niður í ellefu þúsund krónur aðra leið eða 22 þúsund samtals án farangurs. Leggjum saman og við njótum Alcudia í viku fyrir rúmar 90 þúsund krónur alls.

Ekki þarf að koma á óvart að hér er um algjörlega strípaða ferð að ræða. Enginn matur á hótelinu og enginn farangur í fluginu og um einhverja bið getur verið að ræða milli flugferða í Englandi.

En það er lítil fórn til að komast í sól og sælu og 20 stiga hita í byrjun maí undir hundrað þúsund krónum. Sem er vel rúmlega hundrað þúsund krónu lægra verð en það lægsta sem við finnum í beinu flugi héðan. Nægir kannski að nefna að kaupi par aðeins flug fram og aftur í maí gegnum Úrval Útsýn greiðir parið rúmar 170 þúsund krónur fyrir það.

Hvaða aðili er svo að bjóða slíkan pakka á slíku ruglverði frá Bretlandi? Sá heitir easyJet. Nánar tiltekið easyJet Holiday. Ferðina má sjá hér.