Það færist mjög í vöxt í Leifsstöð og á öðrum annasömum flugvöllum heims að ferðalangar skrá sig í flug gegnum vélar í stað þess að innrita sig og farangur hjá manneskju. Margir kunna því vel en á þessu er einn risastór hængur.

Sjálfafgreiðsla í Leifsstöð kann að virðast góð hugmynd. En er það svo? Mynd FIB

Það sparar sannarlega kostnað fyrir flugvelli að henda upp nokkrum innritunarskjám og skera þannig niður störf og starfsmenn af holdi og blóði. Yfirleitt er þetta kallað sjálfsafgreiðsla en merkilegt nokk hefur engin breyting orðið á flugvallarsköttum og gjöldum þó ódýrar vélar hafi nú skipt út tugum starfsmanna svo Leifsstöð sé tekin sérstaklega fyrir. Þvert á móti raunar. Gjöldin hækka jafnt og þétt meðan þjónustan versnar og versnar. Verra þó að á mestu annatímum er biðin að innritunarskjám stundum jafn löng og bið að hefðbundu innritunarborði.

Það er því ekki hundrað prósent ljóst að okkar mati að sjálfsafgreiðsluvélar í Leifsstöð eða annars staðar séu tímasparandi fyrir ferðalanga nema þegar traffík er lítil eða engin.

Mesta meinið er þó sú staðreynd að innritunarskjáir á borð við þá sem finnast í Leifsstöð eru gróðrarstía fyrir bakteríur og vippa af ýmsum stærðum og gerðum. Á undan þér í röðinni er kannski kínversk kona með njálg og á undan henni er Austurríkismaður sem nýbúinn er að bora í nefið. Svo ekki sé minnst á holdsveika Bretann sem er fremstur.

Ok, holdsveiki Bretinn kannski langsótt en það sem er staðreynd og það margsönnuð er að innritunarskjáir eins og hraðbankar, posar og aðrir slíkir staðir eru gósenland fyrir bakteríur.

Einn úr ritstjórn mætti nýverið með þriggja stunda fyrirvara í Leifsstöð og fylgdist með innritunarskjám í tæpar tvær klukkustundir. Ekki einu sinni á þeim tíma kom starfsmaður að þrífa skjáina þó fleiri hundruð farþegar notuðu sjálfsagreiðsluvélarnar á þeim tíma.

Það merkir að þegar þú innritar þig gegnum skjái Leifsstöðvar ertu, nema þú sér með hanska, að hirða upp bakteríur, og guð má vita hvað annað, frá fleiri hundruð og jafnvel fleiri þúsund einstaklingum. Svo kannski gleymirðu að þvo hendurnar áður en þú færð þér samloku fyrir flugið og voilà! Salmonella og viðbjóður blossar upp á ferðalaginu.

Svo er fólk hissa að verða veikt fyrstu dagana á Kanaríeyjum 😉