Þú gætir þurft að punga út fyrir nýrri ferðatösku sé ferðinni heitið til Feneyja frá og með næsta vori. Borgaryfirvöld hyggjast banna allar töskur sem ekki eru á gúmmíhjólum.

Feit sekt fyrir ranga tösku í Feneyjum. Mynd Giuseppi Moscato
Feit sekt fyrir ranga tösku í Feneyjum. Mynd Giuseppi Moscato

Borgaryfirvöld hafa skorið upp herör gegn hávaðamengun í borginni og þar eru töskur ferðafólks einna stærstur vandinn. Hótel mörg í borginni eru nefninlega ekki aðgengileg bifreiðum eða langferðabifreiðum og því verður fólk oft á tíðum að labba nokkurn spöl eftir steinlögðum götum og strætum til að komast fram og aftur. Það vita allir sem dregið hafa harðhjóla tösku á eftir sér í gömlum borgum að hávaðinn er sannarlega verulegur og leiðinlegur.

Það finnst íbúum líka og fjöldi kvartana slíkur að nú skal gripið til ráða. Sá ferðamaður sem veldur ónæði frá og með maí mun verða sektaður á staðnum og sektin ekkert til að grínast yfir eða jafngildi 75 þúsund íslenskra króna.