Enginn skortur er á ferðum í boði með skemmtiferðaskipum og bátum um heimsins höf og ár en flestir þeir sem slíkar ferðir selja minnast lítt eða ekki á eitt það sem auðveldlega getur sett leiðindastrik á slíkar ferðir: sjóveiki.

Siglingar eru nánast alltaf yndislegar. En ekki fyrir alla.
Siglingar eru nánast alltaf yndislegar. En ekki fyrir alla.

Að hluta til heyrist lítið um sjóveiki sökum þess að skemmtiferðaskipin verða sífellt stærri og betri og ýmsar ráðstafanir gerðar til að útiloka vagg og veltu eins og kostur er. Þess utan sigla mörg hver í flóum og nálægt landi þar sem öldugangur er minni en úti á rúmsjó.

Slíkar ráðstafanir duga vel fyrir flesta hverja og alltaf er hluti fólks sem aldrei upplifir sjóveiki af neinum toga. En aðrir eru óheppnari og sumir fá í magann við það eitt að hugsa um skip, báta eða siglingar.

Fyrir það fólk er reiðinnar býsn af ráðum til að vinna bug á slíkri veiki. Sum virka og önnur ekki eins og gengur en hér að neðan má finna nokkur þeirra sem vonandi hjálpa þeim sem óttast að verða sjóveikir eða verða undantekningarlaust sjóveikir. Það er jú hörmulegt alveg að þjást af slíku í ferð sem flokkast sem skemmtiferð.

♥  Sé sjóveiki vandamál ætti fólk undantekningarlaust að bóka klefa sem eru miðskips sé þess kostur. Helst líka með opnanlegum gluggum eða svölum svo njóta megi ferskra vinda með litlum fyrirvara. Ekki of neðarlega því þar finnst stundum bæði vélardynur og titringur frá vélarrúmi og ekki ofarlega heldur því þar finnst veltingur betur.

♥  Slepptu úthafssiglingum. Sjóveiki er mest í öldugangi og öldugangur meiri á veturna en sumrin auk þess sem veðurfar skiptir hér máli. Sigling yfir Atlantshafið er mun óþægilegri en sigling um Mexíkóflóann.

♥  Sé sjóveiki vandamál en sigling draumur samt sem áður ætti að velja eins stórt skip og mögulegt er að finna. Allra stærstu og nýjustu skipin eru svo firna stór og þung að það þarf töluverða ölduhæð til að finna nokkurn einasta hlut um borð.

♥  Ekki borða á þig gat um borð og áfengi er nú heldur lítið að hjálpa til hvað magakveisur varðar.

♥  Gömlu góðu sjóveikitöflurnar eru enn fáanlegar í apótekum og reyndar úrvalið stærra en áður var. Þær töflur hjálpa mörgum en ekki má gleyma að taka þær fyrir siglingu og hafa skammt með um borð. Sérstök sjóveikiarmbönd þykja móðins hjá mörgum en læknar og fræðingar fullyrða að þau hafi lítið sem engin áhrif. Þá vilja sumir meina að engifer sé æði gott gegn sjóveiki. Það er líka til í töfluformi í heilsuverslunum en slíkt hefur víst eingöngu áhrif á suma og ekki aðra.