Það mega Íslendingar eiga að þeir drekka margir eins og heimsendir sé á morgun. Sem mörgum finnst miður en er algjörlega príma afstaða ef svo skyldi fara að loftsteinn lendi á jörðinni fyrirvaralaust. Það kallast að lifa í núinu 🙂

Hið ljúfa líf verður þreytt og leiðinlegt líka á endanum 😉

Það er jú margsannað að það er auðveldara fyrir frosinn landann að brosa og hafa gaman af hlutunum þegar áfengi er haft um hönd eins og þúsundir sveitaballa, tónleika, ættarmóta og miðbæjarþvælings gegnum tíðina geta vitnað um. Það á auðvitað líka við um þær þúsundir Íslendinga sem eytt hafa tíma árlega eða oftar undir Kanarísól.

Velflest okkar hafa jú eytt tíma á þeim spænsku eyjum og margir eyða þar fleiri vikum og jafnvel mánuðum hvert einasta ár. Það gott og blessað en það þarf ekki Nostradamus til að spá fyrir um að þrátt fyrir blússandi hita og steikjandi sól sækir leiði að mörgum á Kanarí ekkert síður en á Raufarhöfn.

Hangs á ströndu er ágætt en þreytt til lengdar. Sigling gæti lagað þá þreytu 🙂

Hvað er þá til ráða?

Ein hugmynd til að brjóta upp Kanarístemmarann án þess að fara of langt er að skella sér í siglingu um Kanaríeyjar. Með öðrum orðum: þegar fólk er sólbakað í bak og fyrir og farið að rífast um smotterí inni á hótelherbergi á Playa de las Americas á Tenerife er kannski ráð að halda til sjós.

Skipafélagið Thomson Cruises býður árlega allnokkra ágæta túra um Kanaríeyjar frá Kanaríeyjum og slík sigling hreint ágætt krydd í tilveruna ef dvalið er lengi undir sólinni á Kanarí eða Tenerife. Þá er gjarnan siglt frá Santa Cruz, höfuðborg Tenerife, um eyjurnar sem tilheyra Kanaríklasanum og til að gera gott mót frábært er einnig skottast til Marokkó og Madeira svona til að hanga ekki í sama farinu.

Sem sagt vikulöng sigling frá Tenerife og endað á sama stað og samkvæmt úttekt Fararheill veturinn 2017/2018 má fá klefa um borð fyrir svo lítið sem 75 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman í innriklefa.

Einhver kann að yppta öxlum. Sigling fyrir tvo fyrir 150 þúsund. Ekkert spes við það.

En hér liggur flaska undir steini. Reyndar nokkrar. Ekki einungis er ALLT INNIFALIÐ um borð, bæði matur og drykkur, heldur og er allt þetta sem er venjulega aukakostnaður, eins og þjórfé, einnig innifalið í túrnum. Fyrir utan auðvitað að skoppast í land á stöðum sem þig hefur dreymt um í áraraðir: Funchal í Madeira, Arrecife á Lanzarote og Agadir í Marokkó svo nokkuð sé nefnt.

Alveg þess virði ef þú spyrð okkur 🙂  Allt um málið hér.

PS: hvers vegna ertu að borga svona mikið fyrir gistingu? Bókunarvefur okkar er þrefaldur heimsmeistari. Skoðaðu hvers vegna 😉