Það er súrt að vera Íslendingur þessi dægrin. Gildir þá einu hvort fólk er menntað upp í rjáfur eða ráfar atvinnulaust um götur. Hvorki meðalbætur né meðallaun á markaði duga vel fyrir öðru en draga andann og kannski lúnu 100 prósent veðsettu þaki yfir haus. Á sama tíma greiðum við sama verð eða hærra fyrir mat og þjónustu og nágrannaþjóðir.

Svona byrjaði Justin Timberlake. Eða ekki. Mynd cruisejobdirectory
Svona byrjaði Justin Timberlake. Eða ekki. Mynd cruisejobdirectory

Auðvitað ekkert algilt en fyrir þá sem fengið hafa upp í kok og það ítrekað og hafa áhuga á ferðaþjónustu er óvitlaust að kíkja á vefinn iworkinhotels.com sem sérhæfir sig í að finna rétt fólk í ýmsar stöður á hótelum víðs vegar um heiminn. Nóg framboð af fyrirtaks fólki hér á Íslandi og margir með launatékka sem duga vart fyrir hárspennu þegar búið er að greiða leigu og mat.

Fróðlegt nokkuð að skoða atvinnuauglýsingar á þeim vef. Þar má þegar þetta er skrifað finna starf barstýru í Hong Kong sem fær fastan samning í tvö ár og tæplega átta hundruð þúsund krónur íslenskar á mánuði fyrir vikið. Svo er starf uppvaskara aðeins fýsilegra sennilega þegar um er að ræða starf á skemmtiferðaskipum og laun hátt í hálf milljón króna.

Sakar ekki að skrá sig fyrir þá fjölmörgu sem fengið hafa nóg í eitt skipti fyrir öll af misréttinu á klakanum.