Þó fullyrða megi að í huga Íslendinga sé ekki sami sjarminn yfir skíðabrekkum í Noregi og í Ölpunum kemur í ljós við úttekt Fararheill að verð fyrir gistingu og skíðapassa á bestu skíðasvæðum Noregs við Lillehammer er nokkuð á pari við það sem gerist á vinsælli skíðasvæðum Austurríkis.

Bestu skíðasvæði Noregs er að finna í Guðbrandsdalnum skammt frá Lillehammer.
Bestu skíðasvæði Noregs er að finna í Guðbrandsdalnum skammt frá Lillehammer.

Það líður að skíðavertíðinni og eins og þjóð veit er sjaldan á vísan að róa á skíðasvæðum hér heima. Sum ár afar góð meðan varla sést snjókorn þess á milli. Þess vegna er það þess virði að komast erlendis minnst einu sinni að vetri þar sem nánast öruggt er að komast í góðar brekkur og þjónusta öll töluvert betri en finnst hérlendis. Fyrir utan það augljósa að kostnaður er svipaður og hér heima.

Algengt verð á dagspassa á nokkrum austurrískum skíðasvæðum þennan veturinn er kringum fimm þúsund krónur og sömu sögu er að segja af dagspössum hjá nokkrum aðilum í Guðbrandsdalnum norska við Lillehammer. Passi þar frá 4.300 og upp í 5.500 samkvæmt okkar skoðun og verðið lækkar lítillega ef keyptir eru passar í lengri tíma en einn dag.

Á hótelbókunarvél Fararheill má finna sæmilega gistingu á báðum svæðum á nokkuð keimlíku verði líka yfir annatíma eftir áramót. Þriggja stjörnu gisting frá átta þúsund krónum per nótt og upp í þrettán til fjórtán þúsund krónur þegar þetta er skrifað.

Munurinn felst í því hvers mikið ódýrara og fljótlegra það er að komast til Lillehammer í Noregi en staða á borð við Lungau eða Flachau í Austurríki. Eins og við reiknuðum út fyrir skömmu og lesa má um hér fer engin fjögurra manna fjölskylda á skíði í viku í Austurríki undir hálfri milljón króna að lágmarki. En það er vel hægt fyrir sömu fjölskyldu að rúlla brekkurnar í Lillehammer í vikustund niður í 300 þúsund krónur.

Til dæmis er komist til Osló og til baka í febrúarbyrjun þegar þetta er skrifað með eina tösku plús skíðabúnað á mann fyrir um 32 þúsund krónur með Norwegian. Fjögurra manna fjölskyldan greiðir því 130 þúsund þar um það bil. Það er strax hundrað þúsund krónum lægra verð en fljúga með Wow Air til Salzburg með sömu formerkjum.

Bætum við þetta tveimur herbergjum á sæmilegu hóteli í vikutíma og við bætist 140 þúsund eða svo við för til Lillehammer. Samtals flug plús gisting fyrir fjóra þannig 270 þúsund. Hendum svo inn mat og ferðum til og frá svæðinu og skíðapössum og fjölskyldan skjagar í hálfa milljón eða svo plús klink til eða frá.

Skíðaferðirnar eru þannig þegar upp er staðið nokkuð á pari varðandi kostnað miðað við fjögurra manna fjölskyldu. Eitthvað ódýrara í Noregi og þangað styttra að komast.