Ef marka má ferðavísi Icelandair þá er borgin Stafangur, Stavanger, í Noregi eftirlætisborg þeirra sem heimsækja Noreg. Þangað flýgur flugfélagið en að dvelja þar varla á færi annarra en hluthafa í HB Granda.stav

Á sama tíma og Icelandair tekur upp á að fljúga með peningahrjáða Íslendinga til Stavanger skoðar stærsta flugfélag Noregs, Norwegian, að fækka áætlunarferðum á staðinn og bera yfirmenn flugfélagsins því við að borgin sé svo svíndýr að þangað vilji fæstir fara.

Yfirmennirnir hafa nokkuð fyrir sér þar því tölur norsku Hagstofunnar sýna að meðalkostnaður á gistingu í borginni er hvergi í Noregi hærri en í Stavanger. Hér greiða ferðamenn að meðaltali tæpum fjögur þúsund krónum meira fyrir sambærilega gistingu en í Osló eða Bergen eða að meðaltali 24 þúsund krónur íslenskar per nótt.

Ástæða þess er vitaskuld sú að Stavanger er fyrst og síðast olíuborg og þar eru almennt meiri peningar í umferð hjá fólki en gengur og gerist annars staðar í Noregi og sannarlega hærri upphæðir en hjá fólki almennt í Evrópu.

Fram kemur líka fram hjá yfirmönnum Norwegian í samtali við Aftenbladet að mælingar sýni lítinn áhuga fólks á ferðum til Stavanger meðan verðlag sé eins hátt þar og það hefur verið. Ekki bætir úr skák heldur að gistirými og afþreying í borginni er af nokkuð skornum skammti og fyrir vikið geta hóteleigendur og veitingamenn hækkað verð sín nokkuð duglega án þess að missa viðskipti.

Einn þekktasti veitingastaðurinn í Stavanger er Sjøhuset Skagen við höfnina. Á heimasíðu staðarins má sjá að aðalréttur kostar þar að meðaltali tæpar fjögur þúsund krónur íslenskar og þriggja rétta kvöldverður fæst vart undir sjö til átta þúsund krónum á mann. Þá ótalið vín eða önnur drykkjarföng.