Það vita þeir sem til þekkja að engir meðalplebba veitingastaðir hafa nokkru sinni komist á blað hjá Michelin veitingastaðabiblíunni. Er það þrautin þyngri fyrir flesta betri veitingastaði í heiminum að fá þar eina einustu stjörnu. Nú hefur hins vegar lítill sveitapöbb í Marlow á Englandi náð sér í tvær.

Pöbbinn frægi í smábænum Marlow er aldeilis merkilegur. Mynd ferðamálaráð Marlow
Pöbbinn frægi í smábænum Marlow er aldeilis merkilegur. Mynd ferðamálaráð Marlow

Alla jafna er matur á pöbbum og krám heimsins tiltölulega einfaldur og einskorðast oft á tíðum við hamborgara og skyndifæði.

Ekki þó á The Hand & Flowers í bænum Marlow. Þar hefur þessi sveitapöbb ekki aðeins náð sér í eina stjörnu á þeim sex árum sem hann hefur verið starfræktur heldur tvær.

Þetta er fyrsti slíki pöbbinn sem fær slíka einkunn í Bretlandi og sannarlega tilefni til að láta sig hafa sérstaka ferð. Bærinn Marlow finnst í klukkustundar fjarlægð frá London og enn skemur frá Luton þaðan sem easyJet flýgur meðal annars hingað til lands. Óvitlaust meira að segja að koma sér hér fyrir eina nótt enda ólíkt ljúfara að gista í litlum sætum bæ en milljónaborginni.