Sé litið yfir kvartanir þær sem ferðalangar í Amsterdam pósta á hótelvefum kemur fljótt í ljós að allmargir sem þar dvelja eiga í erfiðleikum með svefn. Það helgast af því að mörg hótel borgarinnar er að finna á þremur stöðum í borginni en á sömu stöðum fara einmitt gjarnan fram kvöldvökur hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Kannski ekki málið að gista hér um helgar í Amsterdam.
Kannski ekki málið að gista hér um helgar í Amsterdam.

Næturlífið í Amsterdam er heimsþekkt og heimsþekktast er Rauða hverfið en þar er einmitt töluverður fjöldi ódýrari hótela, ef ódýrt skyldi kalla. Kveður svo rammt að látum að einu gildir hvort dvalist er þar á mánudegi eða laugardegi, alltaf eru einhverjir að skemmta sér fram eftir nóttu og láta alla vita af því. Það svæði nær frá lestarstöðinni, Centraalstadion, og út að Dam torginu og jafnvel lítið eitt lengra.

Aðrir blettir sem vinsælir eru eru Rembrandtstorgið, Rembrandtplein, og Leidsetorgið, Leidseplein, og hefur ritstjórn Fararheill reynslu af því að gista við bæði torgin. Það getur vissulega verið erfitt að festa svefn því hér er líf langt fram eftir nóttum regla frekar en undantekning og þá sérstaklega yfir sumartímann. Sem er stór plús ef líf er í fólki en minna spennandi fyrir aðra.

Á meðfylgjandi korti má sjá staðsetningu þessara þriggja stuðstaða og mælir ritstjórn með að þeir sem eiga bágt með svefn sæki í hótel sem eru í fjarlægð frá þeim. Það er vissulega minna miðsvæðis en það er heldur ekkert gaman að skoða miðborgina deyjandi úr þreytu.

Leave a Reply