Málið er einfalt. Þegar við fljúgum viljum við að rellan sé á tíma, vel fari um okkur á leiðinni og komast heilu og höldnu á áfangastað. Þá skiptir og máli að þjónustustig sé betra en hjá gistihúsinu Adam á Skólavörðustíg. Með öðrum orðum að flugfélagið beri virðingu fyrir viðskiptavinum sínum.

Hræðilegt ár fyrir Wow Air en metfjöldi kvartana barst Samgöngustofu vegna flugfélagsins á liðnu ári. Skjáskot

Töluvert vantar upp á þetta síðastnefnda hjá Wow Air Skúla Mogensen. Ekki nóg með að þjónusta almennt sé þar skorin við nögl á handalausum manni heldur þrætir flugfélagið við hvern einasta viðskiptavin sem gengur ósáttur frá borði.

Það má sjá og sanna á vef Samgöngustofu sem heldur utan um kvartanir og bótakröfur á hendur flugfélögum sem héðan fljúga.

Rétt tæplega 200 kvartanir bárust stofnuninni árið 2017 og hafa aldrei nokkurn tímann verið svo margar. Flestar vegna flugatvika árið 2016. Af þessum tæplega 200 kvörtunum kom flugfélagið Wow Air við sögu í tæplega 50 tilfellum og þar af var flugfélagið dæmt til að greiða kvartendum bætur í 40 tilfellum alls. Það er metfjöldi kvartana á einu ári frá því Samgöngustofa hóf að halda skrár sínar og sömuleiðis metfjöldi kvartana á hendur sama flugfélaginu.

Wow Air er himinn og haf fyrir ofan önnur flugfélög í neikvæðri merkingu. Wow Air gert að greiða farþegum sínum bætur í 40 tilfellum en næst þar á eftir kemur hið steindauða Airberlin sem var gert að bæta farþegum skaða í ellefu tilfellum.

Mjög hefur batnað ástandið hjá Svarta Sauð áranna 2016 og 2015. Primera Air varð aðeins þrívegis að punga út bótum síðasta ár samanborið við tæplega 30 tilfelli árið áður. Icelandair sömuleiðis að taka til í sínum ranni. Fimmtán kvartanir á hendur Icelandair/Flugfélagi Íslands en fyrirtækinu aðeins gert að bæta viðskiptavinum sínum vesen í sjö tilvikum. Hið spænska Vueling fékk ákúrur í þremur tilvikum og Wizz Air sömuleiðis þrívegis meðan hið bandaríska Delta þurfti að greiða bætur í tvö skipti.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Flugfarþegar eiga mjög sterkan neytendarétt eins og við höfum bent á ítrekað um margra ára skeið. Vitaskuld eigum við rétt á bótum ef vara eða þjónusta sem við kaupum stenst ekki væntingar. Það gildir um flugfélög ekkert síður en önnur fyrirtæki. Ekki leiðinlegt heldur að bætur vegna alvarlegra tafa á flugi geta í tilfellum verið mun hærri en flugfargjaldið kostaði í upphafi. Það gott fyrir okkur en ekki síður jákvætt fyrir flugrekandann. Því þó enginn þar viðurkenni það opinberlega er ekkert betur fallið til að koma skikki á óstundvíst flugfélag en tugmilljóna kröfur viðskiptavina í ofanálag við annað vesen sem slíkt hefur í för með sér.

Enginn punktur verður settur á þessa grein án þess að skjóta feitum mínus á Samgöngustofu. Aldrei þessu vant er fjöldi úrskurða stofnunarinnar frá síðasta ári óaðgengilegur á netinu. Fjöldi úrskurða ekki birtur án þess að nokkrar skýringar finnist á því. Þá hefur að minnsta kosti einn úrskurðurinn sennilega verið skrifaður rétt áður, á meðan, eða rétt eftir að árshátíð stofnunarinnar var haldin. Þar snýr kvörtun að Wow Air en úrskurðurinn á þá leið að Icelandair skuli greiða kvartendum bætur. Fagmennskan allt að drepa hjá Samgöngustofu.