Nú situr einhver við eldhúsborð heimavið og lætur sig dreyma um sumartúr til hinnar sólríku Miami meðan regnið bylur látlaust fyrir utan og gerir bjartan heim dimman hér heima. En hinkraðu aðeins við.

Svona gæti næsta strönd á Flórída litið út á augabragði í júlí eða ágúst. Mynd MiamiBeach411
Svona gæti næsta strönd á Flórída litið út á augabragði í júlí eða ágúst. Mynd MiamiBeach411

Eins og kunnugt er hefur Wow Air bætt enn einum áfangastað í Bandaríkjunum við áætlun sína og það Miami í Flórída af öllum stöðum. Eðalflott mál í alla staði. Þar með skapast nett samkeppni við Icelandair sem flogið hefur til Orlando lengur en elstu menn muna.

Miami er vissulega meira fyrir ungviðið meðan Orlando er fyrir miðaldra barnafólk og ellilífeyrisþega sem enn halda að þeir geti bætt sig í golfinu. Miami er strandhótel og linnulítið partí meðan Orlando er afgirt íbúð og þögn eftir klukkan 22. Þetta stemmir svona helv. fínt við Icelandair og Wow Air. Gamla konan gegn þessum unga og graða.

Þó er ágætt að hafa í huga að ekki er sérstaklega gaman að heimsækja Miami eða Flórída almennt að sumarlagi. Á vef Wow Air er hægt að bóka flug frá apríl og fram til september og það fyrir tæpar nítján þúsund krónur aðra leið án farangurs þegar best lætur. Ekki slæmur díll per se. En fölbleikir Íslendingar ættu að hugsa sig um tvisvar áður en hoppað er út í vél í júní, júlí og ágúst.

Hvers vegna?

Fyrir það fyrsta er hitastigið í Miami þessa mánuði að MEÐALTALI 28 gráður. Almennt fer hitinn ekki undir 24 gráður þennan tíma.

Hvaða, hvaða hugsar þú. Þetta á pari við Kanaríeyjarnar spænsku og ekki er vandamálið þar annað en teygja sig annars lagið í klink fyrir öðrum bjór…

Nema kannski að Kanaríeyjar glíma ekki við 88% rakastig að meðaltali eins og Miami og allur sunnanverður Flórídaskaginn gerir að sumarlagi. Fólk svitnar við það eitt að vakna. Sem er lítt spennandi ef makinn hefur ekki tekið þrjár, fjórar sturtur kvöldið áður.

En það eru tveir aðrir stórir mínusar við dúllerí í Miami yfir sumarmánuðina. Þetta er mesta rigningatímabil í Flórída sem bætir enn við rakastigið og það sem verra er: þetta er upphaf fellibyljatímans. Það getur skollið á með fellibyl áður en þú getur opnað fyrsta bjór dagsins.

Kanaríeyjarnar hins vegar fá lítið af regni og fellibyljir álíka algengir og launahækkanir hjá verkafólki á Íslandi.