Dótturfyrirtæki Úrval Útsýn Pálma Haraldssonar, Sumarferðir, auglýsir nú víða að fyrirtækið bjóði „betri verð  í sumarsól“ eins og það er orðað. Enginn þar virðist nógu gamall til að vita að orðið verð fyrirfinnst aðeins í eintölu.

Burtséð frá kjánalegum stafsetningarvillum lék okkur hugur að vita hvort yfirlýsing Sumarferða standist. Það er jú ólöglegt að auglýsa eitthvað sem best eða betra nema fyrirtæki geti sannarlega staðið við stóru orðin.

Við kíktum á nokkur dæmi:

Dæmi A: Fjögurra manna fjölskylda (tveir fullorðnir og tvö börn undir ellefu ára aldri) til Tenerife 7.-18. júlí. Gist á þriggja stjörnu HG Tenerife Sur með engu fæði. Verð fyrir þann pakka hjá Sumarferðum sléttar 100 þúsund krónur á mann eða 400 þúsund krónur alls. Svo vill til að Gamanferðir bjóða upp á sama hótel á sama tímabili en þó heim degi fyrr. Prísinn þar 94.341 króna á mann eða 377.364 þúsund krónur samtals. Nema nóttin á HG Tenerife Sur kosti rúmar 22 þúsund krónur eru Gamanferðir að bjóða lægra verð en Sumarferðir. Ferðaskrifstofan Heimsferðir pakkar þó báðum aðilum saman. Þar í boði á sama tímabili svipað þriggja stjörnu íbúðahótel, Globales Tamaimo, fyrir 344.500 þúsund krónur. Niðurstaðan sú að Sumarferðir er EKKI að bjóða „betri verð“ í þessu tilfelli.

Dæmi B: Par eða hjón ætla til Alicante 27. júlí til 3. ágúst og kjósa að gista á Abba Centrum Alicante með morgunverði. Kostnaður við þann pakka hjá Sumarferðum reynist vera 248.040 þúsund krónur. Detti nú sama pari í hug að skoða hvað finnst hjá Gamanferðum sem einnig býður þessa gistingu kemur í ljós að túrinn kostar parið aðeins 201.048 þúsund krónur. Ekki nóg með það. Heimsferðir bjóða sama pakkann á aðeins 196.590 þúsund krónur. Allir sem kunna einfalda samlagningu komast að því að Sumarferðir er EKKI að bjóða „betri verð“ í þessu tilfelli heldur.

Dæmi C: Annað par vill til Alicante en aðeins lengur og aðeins síðar. Þau fá gistingu á þriggja stjörnu Maya Alicante með morgunverði hjá Sumarferðum frá 5.-17. ágúst fyrir alls 405.884 þúsund krónur alls. Parið gæti líka skoppast yfir til Gamanferða og fengið sama hótel með sama morgunverði á sömu dagsetningum fyrir alls 280.251 þúsund krónur. Óhætt að fullyrða að Sumarferðir er hreint EKKI að bjóða „betra verð“ hér fremur en áður.

Vilja ekki ástkærir starfsmenn Neytendastofu kíkja aðeins upp úr litabókunum sínum og skoða auglýsingar Sumarferða. Sannarlega sektarpeningur þar í ríkissjóð…

* Úttekt gerð kl. 19.30 þann 23. janúar 2018 hjá öllum aðilum samtímis.