Hræðileg sjón mætir öllum þeim er rölta í hægðum úti undir beru lofti í belgísku borginni Mons í byrjun september ár hvert. Fyrst heyrast drunur og skrölt úr fjarska sem ókunnugir átta sig ekki alveg á. Skömmu síðar skríða yfir sjóndeildarhringinn skriðdrekar og herbílar í massavís.

Seinni heimstyrjöldin skollin á? Nei, en fjölda stríðstóla frá þeim tíma er komið saman eina helgi í borginni Mons.
Seinni heimstyrjöldin skollin á? Nei, en fjölda stríðstóla frá þeim tíma er komið saman eina helgi í borginni Mons.

Líklega tæki flest vitiborið fólk á rás án þess að hugsa sig um tvisvar. Það er jú ekki eðlilegt mjög að fá í fangið á dúllerísrölti í belgískri smáborg heila herdeild af stríðstólum og hermönnum sem virðast fjarska gráir fyrir járnum.

Hér er hins vegar allt með felldu. Eða eins mikið með felldu og hægt er að vera þegar minnst er hörmunga Seinni heimsstyrjaldarinnar. Herflokkurinn sem gerir strandhögg í Mons ár hvert er nefninlega 83. njósnaherdeild Bandaríkjahers sem hingað kemur til að minnast frelsunar Mons úr höndum Þjóðverja í byrjun september 1944. Sama herdeild og frelsaði Mons á þeim tíma.

Þetta mun vera eina borg Evrópu sem fagnar á þennan máta og um leið eina borg Evrópu þar sem heilleg stríðstól Seinni heimstyrjaldar koma saman á þennan máta. Herbílar, herjeppar, skriðdrekar, fallbyssur, vopnaðir hermenn, árásarprammar, flotprammar og fjölmargt fleira sem ætti að kæta aðdáendur þessa tíma.

Hér fara fram sýningar alla fyrstu helgi september, markaður með muni frá þessari hræðilegu styrjöld rekinn alla dagana og borgin öll tekur þátt í hátíðinni sem er hátíð gleði með harmrænum undirtóni því einnig er verið að minnast þeirra sem féllu í styrjöldinni atarna.

Óvíða betra að fá nasasjón af þeim viðbjóð sem styrjöld fyrri tíma var og styrjaldir vorra tíma eru.