Fáir stærri borgir heimsins eru lausar við mengun og mollu þegar hlýna fer í veðri og því verulega öfundsvert að búa í borg með strönd innan seilingar. Ekki skemmir ef ströndin sú er sandströnd hvort sem er af náttúrunnar höndum eða manngerð.

Strönd við Signu í miðri París. Slík afdrep eru sett upp á hverju ári við ánna og þar er troðið 24/7. Mynd Guarame
Strönd við Signu í miðri París. Slík afdrep eru sett upp á hverju ári við ánna og þar er troðið 24/7. Mynd Guarame

Í þessum fjórum borgum eru fínar strendur hvort sem menn trúa því eður ei.

París: Ekki aðeins má finna „strönd“ í París heldur þrjár. Tvær þeirra á bökkum Signu og ein við Cite des Sciences í Villette hverfinu. Þó heimagerðar séu allar og aðeins opnar yfir hásumarið frá 20. júlí í fjórar vikur standa þær fyrirmyndunum lítt að baki. Nóg er af sandi, minnst þrjú tonn, og margs konar afþreying í boði frá kajökum til sandstrandarboltaleikja. Vel pakkað á þeim öllum þegar sólin skín að sumri og því ráð að fara af stað eldsnemma sé hugmyndin að liggja og sóla sig á góðum stað.

Kaupmannahöfn: Sandströnd og baðstrandarlíf má finna á Amager strönd þegar sól er ofarlega á lofti en þess utan er Havnebadet á Íslandsbryggju eðal staður til sólbaða. Það er ekki strönd í þeirri merkingu en þangað leita þúsundir heimamanna til að drepa tímann þegar svo ber við. Nokkrar sundlaugar í boði og nóg pláss til að leggjast niður og slaka. Þá er grill og bar á staðnum.

Berlín:Þjóðverjar eru strandóðir sem sést best á að vart finnst spænsk, frönsk eða ítölsk strönd þar sem fjöldi þýskra íbúa skjagar ekki hátt í fjölda heimamanna. Heimafyrir eru þeir eins. Yfir 20 strandbarir opna fyrir viðskipti yfir sumarmánuðina á bökkum Spree en fyrir almennilega strandtilfinningu er nauðsynlegt að leggja leið sína að Oststrand. Þar er líf og fjór á sumrin frá morgni til kvölds og raunverulegur sandur í þokkabót.

Vín: Dónáin skapar umgjörð um fallega sandströnd við konserthús borgarinnar. Þar fá byggingameistarar og hönnuðir líka útrás í miklum skúlptúrum úr sandi og er yfirleitt sjón að sjá.