Skip to main content

Þ ær verða ekkert mikið óhrjálegri göturnar en Graces Alley í Whitechapel í London. Dimmt, þröngt og skítugt strætið er þó varla verra en margar þær byggingar sem hér standa niðurníddar og þreyttar. En ekki er hér alveg allt sem sýnist.

Þetta virðist ekki merkilegt en aldrei skal dæma bókina eftir kápunni. Mynd STML

Þetta virðist ekki merkilegt en aldrei skal dæma bókina eftir kápunni. Mynd STML

Það er einfaldasti hlutur í heimi að ganga hér í gegn og sjá ekki nokkuð sem grípur augað. Sérstaklega ekki að degi til. En Fararheill mælir með að þú prófir að rölta hér eftir að rökkva tekur og hitti fólk á réttan dag muntu að líkindum strax rekast á röð af fólki fyrir utan byggingu sem lætur minna en ekkert yfir sér.

Þó engin leið sé að sjá það utanfrá er ein bygging hér afar sögufræg en það verður ekki ljóst fyrr en inn er komið ef á annað borð er opið. Þetta er elsti tónleikastaður heims sem enn er í notkun.

Staðurinn heitir Wilton´s Music Hall og var þegar hann var fyrst opnaður árið 1858 einhver stórkostlegasti staður sem fólk á þeim tíma hafði séð. Ekkert var til sparað á þeim tíma og enn þann dag í dag er auðvelt að ímynda sér hversu grand það hefur verið að koma hingað þó auðvitað sé margt innandyra farið að fúna ef svo má að orði komast.

Rólegt og rómantískt í elsta tónleikahúsi heims. Mynd James Guuppy

Rólegt og rómantískt í elsta tónleikahúsi heims. Mynd James Guuppy

Þetta er enn rekið sem tónleikastaður/bar/leikhús og hér er nánast viður í hólf og gólf alls staðar sem gerir staðinn mun hlýlegri en hægt er að ímynda sér í fyrstu. Hér er lifandi tónlist reglulega og gjörningur og leiksýningar þess á milli. Plús vín og veigar aðrar á allgóðu verði miðað við London.

Aðgangseyrir er misjafn eftir því hvort hljómsveitir eru að spila eður ei og víst er löng röð inn hér seint á kvöldin. En langi fólk í eitthvað öðruvísi, eitthvað ljúft og jafnvel rómantískt er Wilton´s Music Hall ákjósanlegt stopp.