Nú rífa forstjórar Nivea, Banana Boat og Garnier hár sitt og skegg. Nema auðvitað að forstjórarnir séu kvenkyns sem láta þá hártog duga. Ástæðan sú að í fyrsta skipti hefur sólríkur og vinsæll ferðamanna staður bannað sölu á 80% þeirra sólarvara sem bjóðast á heimsvísu.

Þú finnur ekkert mjög margar tegundir sólarvarna í verslunum á Hawaii frá árinu 2021.

Staðurinn atarna er Hawaii sem tilheyrir Bandaríkjunum. Fyrr í vikunni skrifaði landstjóri eyjanna upp á lög þess efnis að frá og með árinu 2021 verði óheimilt að selja og nota sólkrem og sólarvörur sem innihalda oxybensone og octinoxate. Það eru gerviefni sem eiga að hjálpa til við að mynda vörn gegn sterkum og hættulegum UV-geislum sólar.

Hmmm. Hvers vegna er það góð hugmynd kann einhver að spyrja.

Jú, sökum þess að hér er heilt bandarískt ríki að taka einstaka náttúru framyfir fólk og það ríki sem reiðir sig meira á ferðamennsku en velflest önnur ríki landsins. Náttúran er jú einstök og sem slík er meira virði að vernda hana en mannfólk sem fjölgar sér hraðar en mý á mykjuskán.

Frá árinu 2021 verður blátt bann á Hawaii lagt við sölu sólarvarna sem innihalda ofangreind efni. Meginástæðan sú að sannað þykir að þessi gerviefni, sem vitaskuld berast í sjóinn með böðum og svamli í sjávarborði, límast við kóralla og eyðileggja hraðar en auga á festir.

Jamm, sömu kóralla og eru í alvarlegri útrýmingarhættu á heimsvísu og sömu kóralla og kallast heimili yfir 70 prósent allra sjávarlífvera á einhverjum tímapunkti. Sömu kóralla og eru á síðustu metrunum við Ástralíu, Tæland, Mexíkó og Indland.

Frábært skref hjá Hawaii sem tekur heilmikla áhættu með því að taka slíka stöðu með náttúrunni. Sólarvöruframleiðendur líklegir til að kæra og heimta milljarða í bætur enda umrædd efni í 80 prósent allra sólarvara sem í boði eru í dag. Sömuleiðis líklegt að fávísir ferðamenn reyni bótakröfur líka þegar þeir brenna á ströndinni í framtíðinni. Þetta gæti jafnvel fælt einhverja frá heimsókn til Hawaii.

Samt frábært. Það er nóg til af fólki í heiminum en kórallar, ein meginundirstaða lífs í höfunum, eru í útrýmingarhættu. Án þeirra erum við einu skrefi nær dómsdegi.