Scandinavian Airlines hafa lengi flogið undir radarnum en nokkuð hljótt hefur farið um flugferðir félagsins héðan til Osló um árabil. Ýmislegt gott má segja um flugfélagið þó illa hafi þar árað lengi vel. En það er sérdeilis skítlegt að bjóða ýmis safarík ferðatilboð frá öllum sínum áfangastöðum nema Íslandi.

Fínustu tilboð um allt nema á Íslandi af hálfu SAS. Skjáskot
Fínustu tilboð um allt nema á Íslandi af hálfu SAS. Skjáskot

Norðmenn, Svíar og Danir hafa síðustu dagana fengið ýmis girnileg tilboð inn um raflúguna frá SAS. Þúsundir sæta á tilboðsverði. Frá Svíþjóð fæst flug aðra leið til Nice í Frakklandi niður í 7.100 krónur. Frá Danmörku fæst flug til Osló niður í 9.700 krónur. Frá Noregi flug til Malaga niður í 7.700 krónur.

En skoði fólk íslenska heimasíðu SAS er ekki staf að finna um sértilboð eða þúsundir sæta á tilboðsverði. Þar er alls ekkert tilboð í boði.

Var ekki einu sinni hægt að bjóða Keflavík – Osló á tilboði? Eða benda á að frá Köben, Stokkhólmi eða Osló geti Íslendingar komist billega á fyrirtaks staði.

Nei, við erum svo lítil og léleg greinilega. Eða kannski hefur þetta eitthvað með það að gera að SAS er með samstarfssamning við Icelandair. Sem einnig flýgur héðan til Osló…