Eitt af því merkilegasta að sjá í Bretlandi öllu er hið heimsfræga steinvirki Stonehenge sem enn þann dag í dag veldur flestum heilabrotum. Margir þeirra sem þangað leggja leið sína verða fyrir þó fyrir miklum vonbrigðum.

Miðalaus kemst enginn í grennd við hið fræga Stonehenge. Mynd Neil Howard
Miðalaus kemst enginn í grennd við hið fræga Stonehenge. Mynd Neil Howard

Vonbrigðin stafa ekki af steinvirkinu fræga sem verður því magnaðra því nær sem er komið heldur hinu að enginn kemst ýkja nálægt nema með miða í farteskinu og þá miða er aðeins hægt að kaupa með fyrirvara á netinu.

Okkur er kunnugt um fólk sem lagt hefur á sig tveggja stunda keyrslu frá London til að berja staðinn augum en urðu að láta sér nægja að sjá útlínur Stonehenge úr fjarlægð þar sem enginn bókaði miða fyrirfram.

Miða er hægt að tryggja sér á vef Þjóðminjastofnunar Breta hér en það er ekki alveg ókeypis. Einn miði fyrir fullorðinn kostar um þrjú þúsund krónur. Sá miði veitir ekki einu sinni fullan aðgang því almennum gestum gefst ekki færi að labba um meðal dranganna. Fólk verður að láta sér tíu metra radíus nægja.

Það er þó hægt að kaupa sérstaka miða með leyfi til að vappa um svæðið allt en þeir miðar fást óreglulega og aðeins eldsnemma á morgnana eða seint á kvöldin. Þau forréttindi kostar vel rúmar átta þúsund krónur á mann.

Annað frægt steinvirki, Avebury, er ekki langt frá Stonehenge en það virki er jafnvel stærra en hið fræga þó ekki sé það jafn fallegt. Þar má ganga um og skoða án gjalds.×