Engin vél finnska ríkisflugfélagsins Finnair lenti í alvarlegum vandræðum í gær, 23. september, svo fregnast hafi. Sem er auðvitað hið jákvæðasta mál en aukalega fyrir þær sakir að ein véla flugfélagsins í loftinu þennan dag flaug að hluta á steikarolíu.

Finnair fyrstir til að prófa sig áfram með notaða steikarolíu til að knýja vélar sínar. Mynd Michel
Finnair fyrstir til að prófa sig áfram með notaða steikarolíu til að knýja vélar sínar. Mynd Michel

Það var nánar tiltekið ein véla Finnair sem flýgur milli Helsinki og New York en flugið í gær markar tímamót, ef ekki í flugi þá að minnsta kosti hjá Finnair, því aldrei áður hefur hreinsuð steikarolía verið notuð sem flugvélaeldsneyti.

Það eru góðar fréttir fyrir alla að vel hafi tekist til jafnvel þó flugfélagið hafi ekki opinberað hversu mikill hluti eldsneytis var hreinsuð steikarolía.

Það er staðreynd að víða er notuð steikarolía nú brúkuð sem orkugjafi eftir hreinsun og þá gjarnan blandað saman við aðrar tegundir olíu. En áhættan er eðlilega mun meiri í farþegaþotum en til dæmis í bifreiðum ef olían rennur ekki smurt þegar til kemur.

Ef vel tekst áfram til eins og virðist hafa tekist í gær er töluvert bjartara framundan því farga þarf gríðarlegu magni notaðrar olíu í heiminum og það flóknara að gera en segja. Sé eftirleiðis hægt að nota slíkt hættulaust í flugvélar græða allir; náttúran, flugfélögin og kannski flugfarþegar líka ef flugfargjöld lækka.