Alveg sama hversu mikið af áfengi þú hefur innbyrt, þér mun aldrei fyrirgefast að reyna að bregða fyrir þig ensku með írskum hreim meðal heimamanna á Írlandi. Þú færð sennilega afar óblíðar móttökur við slíka tilraun.

Hinn frægi Templebar í Temple Bar hverfinu í Dublin. Hér er gaman og töluvert að sjá en hér er þó fyrst og fremst ferðafólk en ekki hinn hefðbundni bæjarbúi. Mynd informatique
Hinn frægi Templebar í Temple Bar hverfinu í Dublin. Hér er gaman og töluvert að sjá en hér er þó fyrst og fremst ferðafólk en ekki hinn hefðbundni bæjarbúi. Mynd informatique

Af því hefur ritstjórn Fararheill reynslu að Írar eru upp til hópa fólk gott, gegnumheilt og gamansamt gagnvart gestum. Gildir þá einu hvort um er að ræða borgarbúa eða einbúa uppi á heiði.

Írar eru almennt talað ekki svo frábrugðnir Íslendingum og kannski er einhver sannleikur í því að norrænu víkingarnir sem settust að á Íslandi hafi gert strandhögg á Írlandi til að ná sér í þarlendar stúlkur. Allavega er geðslag Íra og Íslendinga ekki ósvipað þegar öllu er á botninn hvolft fyrir utan að hvorug þjóð kann nokkuð með peninga að fara.

Af og til gegnum tíðina hefur landanum gefist tækifæri til að fljúga beint til Írlands en nú eru ferðir til grænu eyjunnar reglulegri og ódýrari en nokkurn tímann. EasyJet  hefur um hríð flogið beint til Belfast og Icelandair hyggst bjóða það líka sumarið 2018. Þá flýgur Wow Air reglulega til Dublin og Cork bættist við árið 2017. Ástæða fyrir golfsýkla og drykkjubolta til að kætast.

En ráð er alltaf að hafa heilbrigða skynsemi með í för. Fari svo einn góðan veðurdag að staldrað er lengur við en helgi er ágætt að hafa neðangreint í huga. Sérstaklega áður en þú pantar Guinness númer sjö.

♥  Hér er vinstri umferð og þó menn geti verið borubrattir í flugvélinni á leiðinni er það merkilega mikið mál þegar á hólminn er komið.

♥  Írland er ekki stórt land og ennþá minna er Norður-Írland. Ekki sleppa norðurhlutanum ef þú ert að þvælast um. Hann er ekkert síðri þótt annað erlent ríki ráði þar ríkjum.

♥  Helgarferðir til Dublin enda oftar en ekki í Temple Bar hverfinu þar sem ferðafólk drekkur gjarnan frá sér vit og rænu. Sem er slæmt því það er töluvert margt skoðunarvert í því hverfi fyrir utan barina. Og nota bene; Temple Bar er hverfi en ekki bar jafnvel þótt til sé Temple Bar í Temple Bar.

♥  Ekki gleyma að spyrja heimamann um hurling. Eða kíktu jafnvel á hurling leik og fáðu að vita hver andskotinn það er.

♥  Þó GPS tæki sé kjánalegt hér á landi þar sem vegir eru um það bil fjórir alls úti á landsbyggðinni er Írland sennilega með flóknasta vegakerfi norðan Alpafjalla. Ekki flókið í merkingunni viðamikið heldur fara þeir sér hægt í að merkja vegina sína og sáraeinfalt að villast fari fólk á rúntinn út í sveitir. GPS er hér næsta nauðsyn.

♥  Ekki gleyma skattaafslættinum. Skattar hafa hækkað á Írlandi eftir hrunið þar en verðlag er samt skrambi gott. Haldirðu kvittunum eftir færðu hluta skatta endurgreidda á flugvellinum við brottför.