Innan fárra ára verður vart lengur ferðast um Asíu án þess að rekast á vestræna skemmtigarða víðs vegar í álfunni en fjöldi slíkra skemmtigarða eru á teikniborðinu allt frá Seoul til Singapore.

Skemmtigarðar opna nú í Asíu eins og gorkúlur og margir fleiri opna á næstu árum

Þannig gætu í framtíðinni andlit Mikka músar eða hinnar vinsælu Kitty úr Hello Kitty verið það fyrsta sem ferðalangar sjá í löndum sem nú þykja mörg hver enn verulega framandi.

Er þetta afleiðing þess að tugmilljónir manna í Asíu eru nú hægt og bítandi að komast í svokallaðan millistéttarhóp með aukapeninga til að eyða en það er einmitt stærsti markhópur stórra skemmtigarða.

Fyrir utan töluverðan fjölda skemmtigarða sem þegar eru í byggingu í Kína bætast innan tíðar Hello Kitty og Disney skemmtigarðar við flóru afþreyingar í Shanghai.

Universal kvikmyndasamsteypan opnaði stóran skemmtigarð á síðasta ári í Singapore og annar slíkur Universal garður mun opna í Seoul í S.Kóreu 2014. Þá opnar risagarður, sem enn hefur ekkert nafn, í Víetnam sama ár og fyrsta asíska Lególandið tekur til starfa í Malasíu 2013.