Franska borgin Lyon er nú alla jafna ekki hátt á stalli þeirra ferðalanga sem þvælast um Evrópu í desembermánuði. Þá eru flestir með hugann við dúllulegar gamlar jólahátíðir. En það er engu minna ævintýri sem fram fer í Lyon.

Sé hægt að tala um veislu fyrir augað er ein slík í Lyon í desember ár hvert.
Sé hægt að tala um veislu fyrir augað er ein slík í Lyon í desember ár hvert.

Fête des Lumières heitir frægasta hátíð borgarinnar og fer ávallt fram í byrjun desember ár hvert. Þetta er ljósahátíð en á heimsmælikvarða og að flestra mati magnaðasta ljósasjó veraldar ár hvert.

Nánast allur gamli miðbærinn fyllist ljósum. Gosbrunnar og ljósastaurar breyta litum og risastórum listaverkum varpað með ljósi á helstu byggingar og lausa fleti. Ljósbogar lýsa þröngar götur og meðfram ánum tveimur sem borginni skipta.

Þá eru ótaldar sýningar í listasöfnum og galleríum um alla borg en þar er einnig áherslan á ljós með einum eða öðrum hætti. Árið 2014 voru meðan á hátíðinni stóð hvorki fleiri né færri en 34 mismunandi innanhúss sýningar hinna ýmsu listamanna.

Ljósahátíðin er hrein viðbót við margt annað hér í borg sem forvitnilegt er að sjá og upplifa eins og lesa má um hér.

Wow Air flýgur beint til Lyon en aðeins yfir sumartímann. Það verður því að millilenda einhvers staðar til að komast alla leið en hingað er flogið frá velflestum öðrum borgum Evrópu.

Gisting er almennt ekki dýr hér en eðli máls samkvæmt hækkar verð yfir stórhátíð á borð við Fête des Lumières. Því óvitlaust að bóka gistingu með eins góðum fyrirvara og framast er unnt og græja flugið síðar.