Sól og sæla er príma ávísun á bætt og betra geð svona hjá flestum okkar. En hvað ef þú gætir gengið skrefinu lengra og fengið sól, sælu og sálarhreinsun í einu höggi?

Á miðjum hrísgrjónaakri í smábænum Keramas í nágrenni við Denpasar er að finna einn helgasta stað eyjaskeggja á Balí: Pura Selukat. Þar er hægt að fá sálarhreinsun á heimsmælikvarða. En þú bókar ekkert á netinu neitt. Þú verður að fara á staðinn.

Sálarhreinsun er stórt orð og auðvitað seint eða aldrei hægt að sanna neitt í þeim efnum. Það er hins vegar staðreynd að sálarhreinsun er vinsæl athöfn hjá eyjaskeggjum á hinni eðalljúfu Balí í Indónesíu. Þjóðráð sé fólk á þvælingi þar að bera sig eftir slíku. Kannski er raunverulega hægt að lækna sálartetrið eins og flest annað.

Víst má víða finna á vinsælum ferðamannastöðum auglýsingaskilti þar sem heilarar og töfralæknar segjast eiga ráð undir rifi hverju við öllu undir sólinni. Margir láta gabbast af slíku og ekki hvað síst í kjölfar vinsælda bókarinnar og kvikmyndarinnar Eat, Pray, Love. Þar finnur söguhetjan innri frið með hjálp heimsklassa heilara sem hún finnur fyrir tilviljun og varð hamingjusöm til æviloka.

Það er ekkert sem meðalJón eða meðalGulla ættu að ganga að sem vísu. Óprúttnir finnast á Balí sem annars staðar og hæpið að detta um fyrsta flokks heilara á vappinu um Kuta eða slíka ferðamannastaði.

Eyjaskeggjar sjálfir segja að sál hvers manns geti þjáðst af sex mismunandi kvillum. Það þarf þrautþjálfaða heilara til að vita hvað amar að þinni ákveðnu sál og ekki síður koma jafnvægi á sálina í kjölfarið. Til þess þarf ferskt vatn sem í tilfellum er blandað tilteknum jurtum eftir kúnstarinnar reglum.

Þrír staðir sem heimamenn sjálfir sækja til að fá bót sálarmeina og eru líka opnir ferðafólki sem bankar upp á eru Pura Selumat, skammt frá ströndinni í Keramas sem aftur er skammt frá Denapasar, höfuðborg Balí. Pura Gunung Kawi er annar en sá finnst á miðju eyjarinnar og er afar yndislegt hof Hindúa og ekki er nágrennið lakara. Ekki langt frá Pura Guning Kawi finnst svo þekktasta og vinsælasta sálarhof Balí: Pura Tirta Empul.

Allir staðirnir opnir ferðafólki og ýmsar „meðferðir“ í boði. Einfaldasta sálarhreinsunin tekur þó vart lengur en tvær stundir eða svo.

Sjálfsagt að prófa ef þú hefur eitthvað á samviskunni sem nagar þig alla daga. Jafnvel þó ekki takist að hvítþvo samviskuna ertu að minnsta kosti búin/-n að prófa eitthvað nýtt og þokkalega spennandi í fjarlægu landi 🙂