Hvernig í ósköpunum endaði Halldór Laxness á ódýru gistiheimili í smáþorpi á Sikiley af öllum stöðum heimsins sumarið 1925?

Smábærinn Taormina var æði vinsæll á sínum tíma enda ekkert hægt að kvarta yfir fallegu landslaginu né útsýninu yfir Etnu
Smábærinn Taormina var æði vinsæll á sínum tíma enda ekkert hægt að kvarta yfir fallegu landslaginu né útsýninu yfir Etnu

Þessari spurningu hafa ýmsir spurt sig gegnum tíðina án þess að hafa fengið svör sem merkileg þykja til að svala forvitninni.  Bækur hinna ýmsu merkismanna um skáldið svara þessari spurningu ekki með fullnægjandi hætti en staðurinn var þó afar vinsæll á þessum tíma.

Taormina heitir hann bærinn þar sem skáldið skrifaði stóran hluta Vefarans mikla frá Kasmír en þó sá staður sé ekki á A-listanum yfir úrvals ferðamannastaði í dag þá var þessi litli bær einn sá allra frægasti þegar Halldór vafraði um Evrópu á yngri árum.

Hann var þó fyrst og fremst vinsæll meðal fyrirmenna þess tíma og þekktra listamanna á borð við Goethe, D.H.Lawrence, Halldórs og síðar manna á borð við Truman Capote. Allir nutu þeir aðstoðar skáldagyðjunnar meðan á dvöl þeirra stóð en síðar meir var nafn Taormina haft í flimtingum á Sikiley og Ítalíu, var talið lastabæli mikið, og bærinn oft kallaður Sódóma Ítalíu.

Bærinn er reyndar yndislegur hafi fólk gaman af smábæjum og smábæjarstemmningu. Strandlengjan hér er bráðfalleg og ekki langt frá er ein drottning eldfjalla þessa heims, Etna, sem spúir reglulega með tignarlegum hætti.

Þar lærði Halldór okkar þá lexíu að þó þeir séu ekki heilir í gegn þá er á fáa betur treystandi þegar fokið er í öll skjól:

Ég lærði meðal annars um Ítali þá lexíu sem ég hef oft sannprófað síðar á dögunum, að þeir standa manni næst ef eitthvað bjátar á – ólíkt ýmsum þjóðum sem er ljúft að segja ókunnugum manni til vegar og eru þægilegir í tali um veðrið, en leysast einhvernveginn í sundur og hafa afklæðst holdinu á samri stundu og gestinum ber einhver vandi að höndum. Ef ég skyldi einhverntíma komst i vandræði þá vildi ég vera meðal ítala. Þeir féfletta heimska utanbæarkaupmenn og sveitamenn úr Norðurevrópu ef þeir sjá að þeir gánga með rassvasana úttroðna af lausum bánkaseðlum; þykir það sjálfsagt mál. En sá maður útlendur sem stendur uppi allslaus og sjúkur ellegar hefur orðið fyrir óláni og slysi, hann á lykil að hjörtum ítala.“