Við hjá Fararheill erum ekki vön að mæla með ferðum sem kosta svo mikið að fólk verður að selja nýru og lungu til að geta slegist í för en neyðin kennir okkur líka að spinna. Ekkert er meira heillandi nú þegar sumarið lítur út fyrir að verða allt blautara en Bubbi Morthens í byrjun ferilsins en einhver ríkulega safarík ferð í vetur. Við fundum eina sérstaklega freistandi.

Stærsta vatn heims, Titicaca, er einn af fjölmörgum frábærum áfangastöðum í ferð sem bragð er að. Mynd Pedro Szekely
Stærsta vatn heims, Titicaca, er einn af fjölmörgum frábærum áfangastöðum í ferð sem bragð er að. Mynd Pedro Szekely

Sú reyndar kostar sitt. Nánar tiltekið 567 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman. En áður en þú tekur andköf bíddu meðan við listum upp hvert ferðinni er heitið. Áfangastaðirnir eru allnokkrir svo við byrjum á löndunum: Brasilía, Perú, Chile, Bólívía og Argentína. Meðal áfangastaða innan þessara landa ætti að nægja að nefna Titicaca vatn, Iguazu-fossa, Inkaborgina Machu Picchu, heimsminjaborgina Valparaíso, Buenos Aires, Rio de Janeiro og Lima svo fátt eitt sé nefnt.

Jamm. Þetta hljómar pínu spennó ekki satt og er þó aðeins fátt upptalið í þessari átján daga ferð um Suður Ameríku. Ferð sem er skipulögð af hinni þekktu þýsku ferðaskrifstofu Reisebüro Eichmann hvers mottó er eftirminnilegt og til eftirbreytni fyrir sum fyrirtækin á klakanum: „Við elskum þjónustu.“ Svo virðist sem þar standi steinn yfir steini því ferðaskrifstofan hefur hlotið frábæra einkunn ekki aðeins hjá viðskiptavinum heldur og neytendasamtökum í Þýskalandi. Þetta er semsagt alvöru.

Eins og ávallt í lífinu er hængur á öllum góðum hlutum. Í þessu tilfelli er hann sá að leiðsögn í ferðinni og fararstjórn fer öll fram á þýsku. Þannig er hætt við að þeir sem ekki eru sleipir í þeirri mállýsku missi af merkum hlutum. Á móti kemur að Þjóðverjar almennt eru jafnan himinlifandi að hitta Íslendinga og það aftur gæti mildað hlutina. Svo er líka smá tími til stefnu að læra grunn í þýsku því ferðin hefst í janúar 2015.

Allt um málið hér (á þýsku).