Örskammt frá hinu fræga tákni Edinborgar, Edinborgarkastala, er að finna bygginga eina við 354 Castlehill sem utanfrá virðist ekki beint vera neitt merkilegri en önnur gömul hús hér um slóðir. En gangi fólk hér inn er hætt við að dvölin verði ívið lengri en ráð var fyrir gert.

Viskí á viskí ofan. Hvergi í heimi er meira úrval af skosku viskíi en hér. Mynd Peter Blumer
Viskí á viskí ofan. Hvergi í heimi er meira úrval af skosku viskíi en hér. Mynd Peter Blumer

Hér er nefninlega eitt allra besta, og flottasta, viskísafn Skotlands og þótt víðar væri leitað. Heimamenn kalla þetta The Scotch Whisky Experience og hafa aðeins eytt um 600 milljónum króna að gera þennan stað að mekka viskíunnenda í landinu.

Þetta er vitaskuld túristagildra dauðans og hvergi stigið án þess að geta keypt minjar og gripi. Þó með þeim formerkjum að það sem hér fer fram er æði merkilegt og magnað. Það magnað reyndar að héðan út koma sumir reikulir í spori og mæta jafnvel timburmönnum fljótlega.

The Whisky Experience er heimili stærsta safns af skosku viskíi sem finnst á jarðarhveli og það vita mætir menn og konur að viskí frá Skotlandi gnæfir yfir framleiðslu annarra þegar kemur að gæðum. Þetta vatn lífsins, sem er merking nafnsins, er víða bruggað hér um slóðir og finna má sjaldgæfar flöskur á eBay eða slíkur miðlum sem kosta tugmilljónir króna hver flaska.

Fyrir utan flöskusafnið eru hér viskísérfræðingar að störfum sem kynna gestum og gangandi fyrir þessum merkilega drykk og veita bæði innsýn inn í framleiðslu þess fyrr og nú en ekki síður leyfa fólki að kynnast hinum ýmsu tegundum, hvernig þekkja beri þær sundur og hvaðan þær séu. Þetta er með öðrum orðum stutt viskínámskeið og einn og einn sopi dettur gjarnan niður í kok meðan á því stendur.

Að þessu loknu halda margir annaðhvort á ágætan veitingastað hér líka ellegar taka skrefið beint á viskíbarinn og halda prófunum áfram.

Eins og fyrr sagði er nettur túristakeimur af þessu öllu og þrátt fyrir mikið og stórt safnið jafnast þetta ekki á við heimsókn til alvöru bruggara en þetta er samt þess virði. Hver túr kostar manninn um 2.600 krónur en með smakki og þeim lærdómi sem kannski fer inn um annað og ekki lengra er það ekki ýkja mikil upphæð.

Allt um málið hér. Hér er svo töluvert meira fróðlegt um Edinborg ef þú hefur áhuga.