Ætli það verði ekki að viðurkennast strax að líklega er skemmtisigling á norrænum slóðum ívið minna sexí en sams konar túr um Miðjarðar- eða Karíbahafið. En sé fólk þarna úti sem langi í þessa fínustu fjórtán daga siglingu um Eystrasaltið í júlí, í svalaklefa og fyrir lágmarksverð ættu þeir hinir sömu að lesa aðeins lengra.

Öðruvísi útsýni en líklega alls ekki verri sigling en aðrar. Mynd Psg
Öðruvísi útsýni en líklega alls ekki verri sigling en aðrar. Mynd Psg

Eystrasaltstúr er nefninlega á kostakjörum þessa stundina og túrinn sá ekki amalegur þó ekki sé um allt innifalið pakka að ræða eins og margir eru vanir. Né heldur er fólk vant því að vita ekkert um skipið sem siglir en það er leyndó fram á síðustu stundu.

Sá sem þetta er að bjóða er hin virta breska ferðaskrifstofa Iglu en í þessari siglingu er haldið frá Southampton á Englandi áleiðis til Brugge í Belgíu, Warnamunde í Þýskalandi, Tallinn í Eistlandi, Pétursborg í Rússlandi, Helsinki í Finnlandi, Stokkhólm í Svíþjóð og Kaupmannahöfn í Danmörku áður en ferðinni lýkur svo aftur í Southampton.

Að okkar mati hreinn fínasti túr þó hitastigið sé kannski ekki alveg á pari við Miðjarðarhafið en það munar ekki mjög miklu um miðjan júlí.

Allra best er þó prísinn á pakkanum. Kaupendur fá sjálfkrafa uppfærslu úr innanklefa í svalaklefa, sem okkur finnst eiginlega lágmarkið á siglingum, plús allt annað um borð að frátöldu áfengi. Verð á mann miðað við tvo saman aðeins 228 þúsund krónur miðað við gengi dagsins. Ofan á það bætist flug til London og heim aftur og kannski nokkrir þúsund kallar að koma sér að höfn í Southampton.

Það er samt fantaverð á fjórtán daga siglingu um hásumar. Meira hér.