Franski bærinn Giverny er jafnan ekki hátt skrifaður í ferðahandbókum enda reiðinnar býsn annað að sjá og upplifa í París og nágrenni. En það er samt hér sem þú finnur einn fallegasta garð Frakklands hvers eigandi náði heimsfrægð fyrir það einmitt að festa sama garð á striga.

Monet var ekki aðeins flinkur með pensilinn. Garður karlsins er kostulegur líka. Mynd Ha Visto Nina Volare

Allir listunnendur vita hver Claude Monet er og var. Oft kallaður faðir impressjónisma og verk hans mörg seljast enn þann dag í dag fyrir tug- og jafnvel hundruð milljóna króna.

Karlinn löngu horfinn yfir móðuna miklu en í Giverny stendur fallegt heimili hans og enn fallegri garður og þar hægt að valsa um og skoða nánast allan ársins hring. Það er þó eðli máls samkvæmt dásamlegast að gera þegar allt er í blóma að sumarlagi.

Þeir sem þekkja verk Monet átta sig samstundis á því á röltinu hér að karlinn hefur verið í latari kantinum þrátt fyrir snilld sína með pensilinn. Latur í merkingunni að kappinn hélt ekkert lengra en út í garð til að finna mótíf fyrir myndir sínar.

Afbragðs afdrep í litlum og kyrrlátum bæ. Mynd Ulla Bosse

Afprentanir af mörgum mynda Monets má einnig sjá inni á heimili karlsins sem er stórt og reisulegt og vert skoðunar.

Bærinn sjálfur er fallegur og stendur, eins og París sjálf, við bakka Signu og háir klettahálsar rísa tignarlega upp úr landslaginu hér. Engin ósköp að sjá en náttúrufegurðin mikil og þetta kjörstaður til að setjast niður og njóta ef þvælingur og þeytirí þykir óspennandi.

Hægt er að skottast hingað í skipulögðum túrum frá París sem taka svona þrjár stundir eða svo. Við mælum hins vegar með að koma á eigin vegum og taka allan þann tíma sem fólk vill. Hingað er komist langleiðina með lest til bæjarins Vernon og þaðan með leigubíl síðasta spölinn. Best þó að vera á bílaleigubíl. Stæði ekki stórt vandamál þó vissulega tröllist hér um ferðamannarútur á háannatíma á sumrin.