Mörgu eldra fólki þarna úti hlýnar um hjartarætur þegar talið berst að flugfélaginu Icelandair, áður Loftleiðir Icelandair. Það verslar við sitt flugfélag hvað sem tautar og raular. Sama fólk og kann margar skemmtilegar sögur af því að hefja drykkju klukkan sjö á morgnana fyrir flug til Kanarí hér í fyrndinni þegar bandarískir hermenn þurftu að gefa leyfi inn á flugvöllinn.

Upp, upp mín sál en svo ekki söguna meir ef ferðast er með Icelandair. Mynd BriYYZ

Vafalítið var flug með Loftleiðum Icelandair eftirminnilegt hér fyrir nokkrum áratugum. Sætin voru breið eins og bæjarstjórinn í Fjallabyggð og fótapláss nægilegt til að fá ekki blóðtappa á fimm mínútna fresti. Öll sæti voru eins hvort sem í þeim settist rassinn á forstjóra HB Granda eða öryrkja frá Bíldudal. Þá var flugþjónastarfið raunverulega heillandi starf sem litið var upp til og farþegar fengu extra góða athygli og þjónustu fyrir vikið. Það var raunveruleg vinarblik í augum flugþjóna þess tíma.

Nú á dögum er þetta skítabatterí frá A til Ö og fyrir því eru þessar ástæður:

A) Þjónustulund við landann hefur alfarið vikið fyrir alhliða græðisvæðingu. Sjá má dæmi um slíkt hvern einasta dag ársins nánast. Sjaldgæft er að Íslendingar njóti sömu kjara frá landinu með Icelandair og útlendingar njóta til og frá landinu. Þetta er auðvelt að ganga út skugga um með því að skoða og bera saman fargjöld Icelandair á íslenskum vef þeirra og erlendum. Það er ekkert „London stopover“ í boði fyrir Íslendinga heldur eins og „Iceland stopover“ er í boði fyrir alla erlenda ríkisborgara sem fljúga með Icelandair. Engir yfirmenn Icelandair vilja fara með þig á skíði í Genf eins og sumum erlendum farþegum flugfélagsins býðst algjörlega frítt hérlendis.

B) Forráðamenn Icelandair opna vart munninn í fjölmiðlum án þess að básúna kosti þess að einkavæða allt landið. Fjöllin, fossana, lyngið og berin og helst selja fólkið með fyrir klink. Gnótt dæma má finna á vef Samtaka atvinnulífins hvers formaður um margra ára skeið var síldarkóngur frá Neskaupsstað. Síldarkóngur sem þótt sérdeilis tilvalinn til að stjórna Icelandair í kjölfarið þrátt fyrir alls 0% reynslu af flugheimum. Hann fékk þó einhverja hjálp frá sjálfstæðismanni sem hafði verið rekinn frá Finnair fyrir að taka þátt í svikamyllu. Það stór plús í bókum stjórnarmanna Icelandair sem réðu manninn í stjórnarformannsstarf fimm mínútum síðar. Merkilegt nokk er flugfélagið ekki aðeins að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða landsmanna heldur þurfti bráðnauðsynlega fjármuni frá lífeyrissjóðunum til að forða Icelandair frá algjöru gjaldþroti hér í hinu svokallaða Hruni 2008. Svo ekki sé minnst á þá hneisu að Icelandair hefur ítrekað þurft RÍKISAÐSTOÐ til að setja bann á verkföll starfsmanna flugfélagsins.

C) Um áratugaskeið voru tvö farrými í boði hjá Icelandair: Saga Class og almenningsfarrými (economy.) Saga Class var helst notað af ríkisstarfsfólki sem fékk flug og meðlæti frítt og vann sér persónulega inn fleiri þúsund flugpunkta sem umsvifalaust voru notaðir til að henda fjölskyldunni þrisvar á ári til Spánar á kostar skattborgara. Það nógu slæmt en lengi getur vont versnað. Nú eru FIMM mismunandi farrými hjá Icelandair og það í nákvæmlega sömu vélum og áður fyrr voru tvö. Vei þeim ræflum er kaupa economy fargjald þessi dægrin. Ekki aðeins er ekkert innifalið og tekið sérstakt gjald fyrir hvern andardrátt um borð heldur eru sæti þeirra aftast og hending ef einhver kemst á klósett vegna þess að þar er veitinga- og sölubás flugfélagsins og flugþjónar á ferðinni með glingur og drasl á fimm mínútna fresti. Sala á drasli trompar alltaf klósettnauðsyn flugfarþega á skítafarrými.

D) Icelandair, hið íslenska flugfélag með íslenska fánann utan á vélum sínum, tekur ekki í mál að taka við ÍSLENSKUM peningum um borð. Íslenskur gjaldmiðill er þar gjaldmiðill-non-grata. Með öðrum orðum þá dugar aðeins að borga fyrir vatn og mat eða glingur og glys með kreditkortum um borð með flugfélaginu. Íslenskar krónur þar alls ónýtar og vekur mikla furðu að Seðlabanki Íslands leggur blessun yfir ruglið. Þú þarft sem sagt að borga fyrir að borga hjá Icelandair (með ársgjaldi hjá kortafyrirtækjum sem svo senda hluta hagnaðar síns til erlendra kortafyrirtækja.) Fyrir utan að bæði kortadeild Icelandair og Visa og Mastercard vita upp á hár hvað þú gerir um borð fyrir utan að pissa og láta þér leiðast. Þær upplýsingar seldar til hæstbjóðandi og viðskiptavinurinn hafður að féþúfu.

E) Lögum samkvæmt BER flugfélögum að veita alla nauðsynlega þjónustu við farþega ef flugi seinkar fram úr hófi eða ef flug fellur alfarið niður. Lágmarksþjónusta við þær aðstæður er að gefa farþegum upplýsingar um mögulegar aðrar leiðir en með Icelandair. Á vef Samgöngustofu má finna hundruð kvartana farþega Icelandair og sömuleiðis dóma stofnunarinnar þess efnis að Icelandair hafi aftur og aftur og aftur og ítrekað látið undir höfuð leggjast að tilkynna farþegum sínum um réttindi sín ef eitthvað bjátar ár. Ekki aðeins snýst þetta um löglega þjónustu heldur og lætur flugfélagið ALGJÖRLEGA hjá líða að tjá farþegum sem lenda í töfum um hugsanlegar bætur. Bætur sem geta numið tugum þúsunda króna. Neibbs, betra er aukið fé í vasa hluthafa en að koma fram af heiðarleika við viðskiptavini.

F)  Flugfélagið hefur fengið svo mikið af neikvæðum ummælum á samfélagsmiðlum að forráðamenn hafa ákveðið að blokkera alfarið allt efni sem ekki lýsir flugfélaginu og reynslu fólks af því nánast sem göngu inn fyrir Gullna hliðið í himnaríki. Sérstakir starfsmenn Icelandair sjá EINGÖNGU um að þurrka út neikvæð ummæli á twitter, facebook og öðrum slíkum vefum til að engum detti nú í hug að hjá Icelandair sé fólk nú ekki á tánum gagnvart viðskiptavinum. Á meðan verða þeir sem nauðsynlega þurfa aðstoð t.d. vegna týnds farangurs að bíða fleiri vikur eftir svörum.

G)  Það horfir loks til batnaðar nú en undanfarin áratug eða svo hefur Icelandair verið að keyra á svo gömlum rellum að enn finnast öskubakkar í flestum þeirra. Gárungar segja að myndir af vélum flugfélagsins hafi fundist í átján þúsund ára gömlum hellum í Frakklandi. Meira að segja leiguvélar Icelandair eru frá þeim tíma þegar grameðlur fundust í Vatnajökulsþjóðgarði. Gott og blessað með eldri vélar ef viðhald er 120 prósent en því er engan veginn hægt að treysta hjá flugfélagi sem sker svo við nögl að það verður að leita til ríkisins þegar flugmenn vilja ásættanleg laun.

Nei, nei og nei. Leyfum harðkjarna sjálfstæðismönnum og ráðuneytisstjórum að fjölmenna um borð í vélar þessa flugfélags sem flýgur í okkar nafni. Við hin brúkum eitthvert af þeim tæplega 30 flugfélögum öðrum sem fljúga nú til og frá Íslandi og það yfirleitt á lægra verði og í nýrri vélum.

Sendum Icelandair inn í fortíðina ef þetta skítalið sem þar er við stjórnvölinn getur ekki sýnt okkur sóma þó þeir fljúgi í okkar nafni.