Sannleikurinn er sá að eftir því sem árin færast yfir því minna fer fyrir næturbrölti á skemmtistöðum og meira fyrir næturbrölti heimavið útaf pissuspreng eða svefnleysi.

Hér sé stuð! Kulturbrauerei í Berlín.
Hér sé stuð! Kulturbrauerei í Berlín.

Ekki kannski síst vegna þess að margir tengja klúbba orðið við reif af einhverju tagi með viðeigandi pönkuðu fólki og gnótt fíkniefna þykir fáum yfir þrítugu sérstaklega heillandi af „klúbbast.“

En einn er sá staður sem kannski breytir hugmyndum þínum um klúbbamenningu. Sá er fáum líkur og er staðsettur í Berlín. Til að gefa hugmynd um hversu geggjaður hann er þá má þar undir einu þaki finna sextán dansgólf og ellefu sali sem í spila 35 plötusnúðar þegar best lætur.

Það er verið að tala um Kulturbrauerei. Gömul risastór bruggverksmiðja sem breytt hefur verið í skemmtanamiðstöð dauðans. Ekki aðeins á kvöldin heldur 365 daga á ári eða því sem næst.

Með skemmtanamiðstöð er ekki eingöngu verið að vísa til glymjandi tónlistar og iðandi líkama á dansgólfum. Hér koma einnig saman listamenn af ýmsum toga og vinna saman fyrir opnum tjöldum. Fjölmörg verk má sjá á göngum og veggjum og í porti og reglulega eru formlegar sýningar hér.

Síðast en ekki síst vill stuðið oft færast utandyra þegar mikið liggur við eins og um áramótin þegar hér er eitt besta partí Berlínar.

Hér er stuð og vel tekið á móti öllum. Það getur Fararheill vottað.