Hvað gætir þú ímyndað þér að þú þyrftir að greiða hérlendis fyrir fjórtán daga lúxussiglingu milli Singapore, Tælands, Víetnam og Kína í viðbót við þriggja daga dvöl á fínu hóteli í Dúbai plús flug auðvitað?

Styttu veturinn í lúxus í Austurlöndum fjær fyrir lítið. Mynd Celebrity Cruises
Styttu veturinn í lúxus í Austurlöndum fjær fyrir lítið. Mynd Celebrity Cruises

Við hjá Fararheill þurfum ekki að giska mikið því við erum mjög meðvituð um verðlag almennt á skemmtisiglingum hjá innlendum ferðaskrifstofum. Við myndum skjóta á milli 500 til 600 þúsund krónur á mann hið minnsta.

Skoskri ferðaskrifstofu tekst þó að bjóða slíka ferð alveg fram til mars á næsta ári niður í 285 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman í innriklefa. Í Bretlandi er þetta um 80 þúsund króna lægra verð per mann en venja er og þar eru siglingar almennt töluvert ódýrari en hér gerist. Inn í þetta vantar vitaskuld flug frá Íslandi og heim að ferð lokinni.

Flogið er frá Gatwick til Dúbai þar sem fólk getur spásserað um þá himnaríkisborg í þrjá daga. Sem er alveg passlegt því þó ýmislegt merkilegt sé þar að sjá er borgin yfirborðskennd og það fer að bera á því eftir tvo til þrjá daga.

Að þeirri dvöl lokinni er stigið um borð í fínasta skemmtiferðaskip þar sem við tekur tveggja vikna sigling þar sem siglt er frá Singapore til Tælands, þaðan til Víetnam áður en stoppað er í Hong Kong þaðan sem flogið er aftur heim. Allt innifalið nema þjórfé og ágætur tími til skoðunarferða í landi.

Ferðina verður þó að negla fljótlega því þetta er aðeins í boði fram til mars og aðeins á tilteknum dagsetningum. En mikið ósköp væri indælt að stytta janúar- eða febrúarmánuð með þessum hætti.

Meira hér.