Það þarf færari penna en þá sem reka Fararheill til að lýsa fyrir fólki tilfinningunni að ganga inn í hina ægifögru byggingu Ægisif í Istanbúl. Líklega dugar samt ekki að hóa í Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum því þeirri tilfinningu vart lýst með orðum.

Ægissif í allri sinni dýrð
Ægissif í allri sinni dýrð

Ægisif er hið frábæra íslenska heiti á Hagia Sophia sem væntanlega alla fróðleiksfúsa menn ofan jarðar langar að sjá og skoða með eigin augum. Það sem fyrst var mikil og vegleg kirkja breyttist svo í mosku þegar Ottómanar tóku völdin og undanfarin 80 ár eða svo hefur Hagia Sophia verið safn öllum opið.

En þrátt fyrir að vera helsta kennileyti Istanbúl í Tyrklandi og reyndar eitt helsta kennileyti Tyrklands eru taldar líkur á að gestum verði í framtíðinni meinaður aðgangur hér inn. Harðlínumenn í stjórn landsins og aðrir áhrifamiklir einstaklingar vilja breyta Ægisif í tilbeiðslustað á nýjan leik og þá í mosku og verulegur stuðningur er við hugmyndina í landinu.

Yrði það raunin mega hinir vantrúuðu, allir þeir sem ekki eru múslimar, ekki ganga inn fyrir hússins dyr nema með sérstöku leyfi og sannarlega ekki trufla bænastundir með ljósmyndagræjur, farsíma eða annan búnað sem ferðamönnum er tamt að hafa. Konum yrði meinaður allur aðgangur öllum stundum alltaf.

Það yrði mikil synd og afturför fyrir Tyrki en ekki síður dapurt fyrir ferðaþyrsta því þótt Ægisif sé glæsileg að utan er hún öllu fegurri að innan.

Á leiðinni til Istanbúl? Fararheill hefur tekið saman helstu staði í borginni hér.