Eyjan Bali hefur um hríð heillað Íslendinga ekki síður en aðra sem efni hafa haft að heimsækja þessa perlu í Indónesíu sem ár eftir ár kemst á lista yfir stórkostlegustu áfangastaði heims.

Sálarhreinsunarfossarnir er sagðir allra meina bót að innan sem utan
Sálarhreinsunarfossarnir er sagðir allra meina bót að innan sem utan

Bali er fyrir löngu orðinn rótgróinn ferðamannastaður enda margt hér sem heillar og gildir þá einu á hvaða aldri ferðalangar eru. Bali er einnig einn af fáum hitabeltisstöðum þar sem hitinn verður sjaldan yfirþyrmandi sökum þess að um eyju er að ræða og regntímabilið er aldrei hræðilegt þar sem sólin skín ekki síður þá en annars.

Fjölmargir staðir á eynni eru þess virði að skoða ef ferðafólk kemst á annað borð úr hengirúmum sínum á ströndum landsins. Hér eru þeir sex helstu:

CELUK  >>  Um er að ræða þrjú lítil þorp við hlið hvers annars sem hvert um sig eru skemmtilega frábrugðin. Í því fyrsta starfa gull- og silfursmiður baki brotnu við stalla sína í allra augsýn. Í næsta bæ sjást engir slíkir en í staðinn eru tréskurðarmenn í yfirgnæfandi meirihluta. Í þriðja og síðasta vinna íbúar við sömu aðstæður en nú í stein. Það er semsagt hægt að virða fyrir sér í nærmynd gamla vinnsluhætti fólksins og ekki síður kaupa minjagripi eða beinlínis láta hanna fyrir sig úr gulli, tré eða steini.

PURA TIRTA EMPUL  >>  Heilagasta musteri eyjaskeggja og reist á svipuðum tíma og menn fundu Ísland. Nafnið þýðir bullandi vatn enda bullar það beinlínis upp úr svörtum sandi og skapar umgjörð um fjóra hreinsunarbrunna sem eyjamenn nota sér óspart. Hver brunnur hreinsar menn af mismunandi hlutum samkvæmt trúnni og eru óspart notaðir.

GOA GAJAH  >>  Fílahellirinn er merkilegt mannvirki til trúariðkunar. Um er að ræða stóran helli í afar þröngum dal nálægt bænum Ubud. Þar má meðal annars sjá stórt líkneski Ganesh sem er mannslíkami með fílshöfuð og á sterkar rætur í trúuðum hér um slóðir.

TANAH LOT  >>  Gamalt musteri en einkar haganlega byggt á litlu en bröttu rifi nokkur hundruð metra út í sjó. Á háflóði er eins og musterið fljóti á sjónum. Þá er ferskvatnsbrunnur í kjallara musterisins og í heilögum helli gæta heilagir snákar þess að þangað fari enginn óboðinn.

JATULIWEH  >>  Útsýnisstaður yfir hrísgrjónaakra sem byggðir eru á hæðum svo langt sem auga eygir. Hljómar kannski ekki stórkostlegt en útsýnið ólýsanlegt engu að síður enda margir pallarnir byggðir í mikilli hæð og miklum bratta.

TAMAN AYUN  >>  Er stærsta höll konungsfjölskyldunnar í landinu og notað eins og flest stærri mannvirki þarna til trúarlegra iðkana. Byggingin falleg og merkileg og umhverfið ekki síður.


Leave a Reply