Enn þann dag í dag virðist fjöldi fólks ekki vita af því að í Barcelóna getur bert hold kostað mann vænan skilding. Allt upp í 80 þúsund krónur. 

Lögregla í Barcelóna sektar nú hiklaust fyrir of mikla nekt á götum úti
Lögregla í Barcelóna sektar nú hiklaust fyrir of mikla nekt á götum úti

Nektarsektum hefur verið beitt í borginni frá árinu 2011 en fram að þeim tíma höfðu borgarbúar krafist þess að hart yrði tekið á slíku fyrir utan strendurnar.

Ekki svo að skilja að nekt hafi verið stórvandamál heldur fór það mikið fyrir brjóst heimamanna að klæðalitlir ferðamenn þvældust um söfn, kirkjur og aðra merkisstaði klæddir eins og á sólarströnd væru. Margir segja það bæði dónaskap og sýna mikla óvirðingu. Hér ágætt að muna að Spánverjar margir er rammkaþólskir og í þeim fræðum er bert holdið ekki hátt skrifað.

Fyrstu misserin lét lögregla viðvaranir duga. Nú er aftur á móti farið að taka nokkuð hart á þeim sem valsa um berir að ofan eða í strandklæðum inni í borginni og breytir þá engu hversu hátt hitastigið er.

Vandamálið er hins vegar að hver og einn lögreglumaður verður að meta hvað teljist ósæmilegur klæðaburður og sömuleiðis hafa lögreglumenn í hendi sér hvort þeir gefa viðvörun áður eða deila strax út sekt. Sekt sem getur sannarlega sett blett á gott frí því upphæðin sem punga verður út rokkar frá 50 þúsund krónum og upp í 80 þúsund krónur.

Lítt skemmtilegt að rífa allt að 80 þúsund krónum úr veskinu hitti klæðalítið fólk önugan lögreglumann á vappinu. Bolir kostar heldur engin ósköp 😉