Skip to main content

Það eru engin tíðindi fyrir ferðaglaða að mun dýrara hefur verið að þvælast um heiminn eftir Hrunið. Sum lönd orðin allt of dýr fyrir íslenskan meðallaunamann að njóta og Noregur þar ágætt dæmi. Innan tíðar gæti borgin Seattle í Bandaríkjunum og Sviss í heild sinni bæst í þann hóp.

Dýra Seattle gæti orðið töluvert dýrari fyrir okkur Frónbúa innan tíðar.

Dýra Seattle gæti orðið töluvert dýrari fyrir okkur Frónbúa innan tíðar.

Hvorki Seattle né borgir í Sviss eru neitt sérstaklega ódýrir áfangastaðir í dag. Þvert á móti. Seattle hefur lengi verið ein af dýrustu borgum Bandaríkjanna að heimsækja og Sviss sömuleiðis kemst ítrekað á lista yfir allra dýrustu staði að búa á og lifa.

En finnist fólki heldur mikið að kaupa kaffibolla á þúsund krónur eða greiða 600 kall í strætó er það hátíð miðað við hvað gæti orðið raunin mjög fljótlega. Ástæðan sú að á báðum þessum stöðum kemur til greina að snarhækka lágmarkslaun fólks. Það, eins og sagan sýnir, fer yfirleitt að langmestu leyti beint út í verðlagið.

Yfirvöld í Seattle íhuga, fyrst allra í Bandaríkjunum, að hækka lágmarkslaun á svæðinu og það duglega úr tæpum tíu dollurum í 15 dollara og tengja laun eftirleiðis beint við verðbólgu. Mikill stuðningur er við framtakið almennt og auðvitað er besta mál að fólk njóti mannsæmandi launa. En slík hækkun mun hækka verð á allri þjónustu umsvifalaust í kjölfarið og því gæti þúsund króna kaffibollinn á skömmum tíma hækkað í 1.300 krónur til dæmis. Og kosti kaffi slíka upphæð er hægt að ímynda sér hvað allt annað hækkar.

En allar hugsanlegar hækkanir í Seattle er nánast brandari ef fólk í Sviss ákveður að samþykkja lágmark á laun í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fer um næstu helgi. Hugmyndin er nefninlega að lágmarkslaun per klukkustund verði 22 frankar. Samkvæmt miðgengi dagsins eru 22 frankar alls rúmar 2.800 íslenskar krónur.

Fyrir íbúa sjálfa skiptir þetta litlu máli þannig. Tímalaun almennt í Sviss eru hærri en þetta lágmark en ekki í þjónustugeirum sem ferðafólk notar mest. Dýra Sviss mun næsta örugglega verða aðeins dýrari fyrir okkur sem dreymir um göngu í stórkostlegum Ölpunum eða langar að birgja okkur upp af svissnesku súkkulaði og gauksklukkum.