Einhvern tímann í næstu viku munu fjölmiðlar landsins birta lofsamlegar greinar um hina rússnesku Sankti Pétursborg enda hefur Icelandair hafið þangað áætlunarflug frá og með gærdeginum. Enginn þeirra mun líklega skýra frá því að ferðin, hótelið, matur og kynnisferðir hafi verið í boði flugfélagsins og þarlendra ferðamálayfirvalda.

Hluti ritstjórnar Fararheill hefur starfað í fjölmiðlum til fjölda ára og veit mætavel hvernig kaupin ganga fyrir sig á þeirri eyrinni. Oftast er raunin sú að „uppáhalds“ blaðamönnunum er boðið í slíkar gjafaferðir þar sem þeir hafa staðið sig vel og verið þægir og góðir. Stundum er lýðræðið meira og sent í slíkar boðsferðir eftir starfsaldri eða í stöku tilfellum skipt bróðurlega á milli.

Með öðrum orðum; það er aldrei sendur sérstakur blaðamaður með vit á viðkomandi stað eða áhuga enda lítil sem engin umfjöllun um ferðalög í fjölmiðlum á Íslandi.

Það kannski segir fólki ýmislegt að tveir vefmiðlar sérhæfa sig í umfjöllun um ferðir og ferðalög, Annar þeirra rekinn af Íslending í Svíþjóð og sá fjallar jákvætt um hlutina. Hinn vefurinn er neikvæður og bendir gjarnan á það sem betur má fara. Sá fyrrnefndi hefur ferðast vítt og breitt á kostnað Icelandair en aldrei skýrt frá því í umfjöllun um staði. Hinn hefur aldrei fengið eitt einasta boð.

Segið svo börnunum að heiðarleiki borgi sig 🙂