Madeira er einn af þessum stöðum sem aðeins stórvesírar á borð við Shakespeare og Voltaire gætu gert skil með orðum. Mynd tobephotoPant ekki aka hér um í mikilli hálku. Mynd lietz.photographyGrasagarður Funchal er með þeim betri í þeim flokknum sem Fararheill hefur vitnað. Mynd Fred Jackson

Fyrir rúmum þremur árum fékk ritstjórn það óþvegið í skeyti frá einstaklingi sem var hreint ekkert sáttur við að okkur skyldi detta í hug að segja að portúgalska eyjan Madeira væri jafnvel fallegri en öllu stærri eyja norðar í Atlantshafinu sem kennd er við ís.

Við virðum skoðanir fólks en ítrekum þá skoðun okkar að Madeira er stórfengleg eyja og sannarlega á pari við það fallegasta sem finnst á Íslandi. Það sem er sannarlega betra en heimavið á klakanum er til dæmis ljúf sólin sem hér kyssir vanga allan ársins hring og ekki síður er verðlag á mat og drykk, fatnaði og farartækjum sérdeilis mikið betra en heima gerist. Það er því 3-1 fyrir Madeira í okkar bókum.

Það má ferðaskrifstofan Úrval Útsýn eiga að þar á bæ tóku menn upp á því, seint og um síðir, að bjóða stöku ferðir til Madeira sem tilbreytingu frá Kanaríeyjunum öllu sunnar. Það gerir sú ferðaskrifstofa ennþá og næsta ferð fyrirhuguð í apríl. Þá er dvalið í níu daga en eins og oft vill verða raunin hjá ÚÚ er verðlagið ekki alveg miðað við hversdags-Jón og hversdags-Gunnu. Allra lægsta verð í þeirri ferð er 277 þúsund krónur á par eða hjón.

Alls ekki hræðilegt verð miðað við það sem gengur og beint flug afar heillandi fyrir utan að gist er á ágætu hóteli en reyndar ekkert innifalið.

En hvað ef þú þarft að komast í sól á Madeira eigi síðar en NÚNA!

Þá er óvitlaust að kynna sér æði gott ferðatilboð dönsku ferðaskrifstofunnar Star Tours sem selur nú átta daga ferðir til eyjarinnar þar sem dvalið er á sæmilegu íbúðahóteli nú strax í næsta mánuði. Þar finnast, þegar þetta er skrifað, minnst tvær ferðir á verði sem er nú á nippinu að vera fáránlegt: 42 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman eða samtals 84 þúsund krónur fyrir átta daga ferð til Madeira frá Kaupmannahöfn.

Lygilegt verð en nú verðum við aðeins að leggja haus í bleyti. Við þurfum ekki aðeins að bóka umrætt tilboð heldur og tryggja okkur flug til Köben og heim aftur.

Það náttúrulega einfaldara en allt einfalt. Skyndileit á vef Icelandair leiðir í ljós að til Köben degi fyrir brottför til Madeira og flug heim degi eftir að heim er komið fæst fyrir tæplega 35 þúsund krónur á mann. Samtals því 70 þúsund fyrir tvo.

Víst þarf líka að finna svefnstað degi fyrir Madeira og eina nótt líka áður en haldið er heim til Íslands. Á hótelleitarvél Fararheill (neðar) finnast herbergi á fjögurra stjörnu hóteli niður í sextán þúsund krónur. Svo er Kaupmannahöfn í desember fráleitt leiðinleg borg þess utan og kannski óvitlaust að valsa aðeins um og versla einn dag eða tíu til viðbótar.

Niðurstaðan engu að síður sú að þú og makinn getið notið Madeira strax í næsta mánuði og setið sólbrún og sælleg yfir hamborgarhryggnum eða rjúpunum um jólin fyrir alls 184 þúsund krónur að meðtöldu hóteli í tvo daga í Köben.

Ef þú ætlar að kvarta undan þessu máttu bara eiga þig 🙂

PS: dvalið er í hinni indælu höfuðborg Funchal á Madeira og svo heppilega vill til að við erum búin að kortleggja hana í ræmur. Vegvísir til Funchal.