Ef marka má reynslu ritstjórnar Fararheill eru fjári margir Íslendingar sem láta sér nægja allt þetta hefðbundna þegar dvalið er í hinni bráðskemmtilegu Barcelóna. Ramblan, höfnin, Sagrada kirkjan, kaffihús í Barrio Gotico og verslanir á þessum svæðum virðist nægja flestum til að halda sátt heim á leið.

Það er svo fjölmargt annað spennandi í Barcelóna en þetta hefðbundna
Það er svo fjölmargt annað spennandi í Barcelóna en þetta hefðbundna

Verður að segja eins og er að það er synd vegna þess að öll ofantalin svæði eru meira og minna túristavædd út í eitt og þó öll séu þau vissulega skoðunar virði og auðvelt sé að njóta þeirra um leið eru þau ekki mjög lýsandi fyrir borgina né yndislegt mannlífið.

Oft heyrist sagt að París í Frakklandi sé borg ástarinnar og má til sanns vegar færa. En sé fólk reiðubúið að halda aðeins út fyrir þessa ágætu ofangreindu staði komast menn fljótt að því er Barcelóna ekki síður eins rómantísk og París þó ólíkar séu.

Ritstjórn mælir sérstaklega með síðdegis- eða kvöldgöngu upp Montjuïc hæðina þegar hitinn er ekki að bræða mann og annan. Láta svo ekki staðar numið fyrr en komið er að Montjuïc kastalanum (sjá kort). Sá staður er upplýstur þegar kvölda tekur með rómantískum og róandi ljósum og gangan sjálf snilldin ein og margt að sjá.

En ekki nóg með það. Hafi fólk áhuga að hoppa rakleitt inn í stemmninguna hjá heimamönnum er sérstaklega ráð að halda að kastalanum með teppi og nesti, og eitthvað áfengt á borð við Cava skemmir ekki fyrir, þau kvöld þegar klassískum kvikmyndum er varpað á virkisvegg kastalans. Slíkt gerist annað hvert virkt kvöld frá júníbyrjun fram í ágúst og kvikmyndirnar yfirleitt í betri kantinum.

En þær eru nánast aukaatriði við að sitja við hlið hundruða eða jafnvel þúsunda para og vinahópa sem allir njóta blíðunnar, vinskaparins og flestir hverjir með nesti þó nýir skór séu sjaldséðari. Um þessa stemmningu er ekki hægt að skrifa mikið; hana verður að upplifa.

Allt um dagskrá Sala Montjuïc hér og hafa skal í huga að dagskráin er alls ekki bundin við kvikmyndasýningar. Hér fara líka fram konsertar og jafnvel smærri popptónleikar auk annars. Virkilega þess virði að heimsækja fyrir utan kastalann sjálfan og útsýnið frá Montjuïc hæð.