Það er jafnan yndislegt á góðviðrisdögum í okkar gömlu höfuðborg að rölta um gömul stræti Kaupmannahafnar. Margt að sjá víða og einhvern veginn fer merkilega lítið fyrir stressi á götum hér. En ekki síður indælt er að sigla um sund og síki þessarar borgar.

Vertu þinn eigin skipstjóri í Kaupmannahöfn. Mynd Miss Copenhagen
Vertu þinn eigin skipstjóri í Kaupmannahöfn. Mynd Miss Copenhagen

Það hefur lengi vel verið hægt að fara í stuttar siglingar um tiltekin síki hér í borg og yfirleitt skemmtileg lífsreynsla því eins og annars staðar lítur borgin öðruvísi út við slíkar aðstæður en á göngu. En það er nýjung að hver sem er geti leigt sinn eigin bát og flotið um áhyggjulaus.

Áhugasamir, og eða rómantískir, geta nú verið eigin skipstjórar meðan flotið er hingað og þangað um borgina og ekki þarf nein leyfi eða kennslu til.

Ástæða þess er að bátarnir sem um ræðir, GoBoat, eru svo hægfara að erfitt er að valda miklum usla jafnvel þó fólk reyni.

Bátarnir eru allsérstakir svo ekki sé meira sagt. Bæði eru þeir vélarlausir og líka byggðir úr endurvinnanlegu plasti. Þeir eru knúnir áfram af sólarorku en komast engu að síður í þriggja hnúta hraða, sirka sex kílómetra, ef svo ber undir. Ef rómantík er í brjósti er óvitlaust að kaupa nestiskörfu hjá GoBoat en það býður bátaleigan ef óskað er.

GoBoat finnst við Íslandsbryggju og þar er opið frá morgni til kvölds og engin sérstök þörf að panta fyrirfram þó það sé óvitlaust á sólríkum dögum. Klukkustundar sigling kostar rúmar átta þúsund krónur en það komast líka átta manns fyrir og verðmiðinn þannig einn þúsundkall á hvern. Lítið verð fyrir góða stund.

GoBoat hér.