Það þyrfti sennilega að skoða hausinn á hverjum þeim sem setti rómantík í samhengi við olíuborpall enda nákvæmlega ekkert þar sameiginlegt… eða hvað?

Ekkert að þessu hér. Veitingastaður Spitfort Bank úti fyrir ströndum Portsmouth.
Ekkert að þessu hér. Veitingastaður Spitfort Bank úti fyrir ströndum Portsmouth.

Ekki nema þá fólk sé að hugsa um þá olíuborpalla og sjávarmannvirki önnur sem framsæknir, bjartsýnir og vellauðugir menn hafa breytt í lúxushótel og gististaði. Töluvert er nefninlega um slíkt.

Gömul mannvirki á hafi úti sem eru nú að keppa um gesti og siglandi má finna í Bandaríkjunum, Hollandi, Malasíu og Bretlandi til dæmi.

Þá eru skoskir aðilar að skoða hvort breyta megi úreltum borpöllum sínum í Norðursjó í fljótandi hótel í stað þess að sökkva járnaruslinu eins og er því miður raunin oftast nær. Kostnaður við að losa þá af undirstöðum sínum og draga til hafnar til niðurrifs er einfaldlega of mikill til að það borgi sig.

Af þeim sökum geta áhugasamir nú dvalið nokkrar nætur á Frying Pan Shoals fyrir utan strendur Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, Spitbank Fort skammt frá ströndum Portsmouth á Englandi eða Seaventures Resort við strendur Malasíu svo nokkrir séu nefndir.

Úrval slíkra gistikosta gæti þó margfaldast næstu árin því uppi eru hugmyndir um að breyta nokkur hundruð úreltum olíuborpöllum í Mexíkóflóa í gististaði í náinni framtíð.

Hætt er við að slíkt verði þó líklega seint mjög vinsæll dvalarkostur nema í skemmri tíma. Það er jú ekki eins og fólk æði af stað eitthvað. Gisting á slíkum stöðum er heldur ekki sérstaklega ódýr kostur í samanburði við hefðbundnari gistimöguleika.