Það væri dálítið leiðinlegt að fljúga alla leiðina til Perú til að komast að því að þér er ekki heimilt að ganga hina frægu Inkaleið að Machu Picchu.

Inkaleiðin er erfið en mikilfengleg enda Andesfjöll stórkostleg náttúrusmíð
Inkaleiðin er erfið en mikilfengleg enda Andesfjöll stórkostleg náttúrusmíð

Nei, við skulum umorða þetta: það væri hræðilegt.

En það er því miður nokkuð um að ferðafólk æði af stað til að ganga hina þungu fjögurra til sex daga Inkaleið upp Andesfjöll að hinu stórkostlega mannvirki Machu Picchu og komi að lokuðum dyrum. Það eru nefninlega takmarkanir á ferðamannafjölda í gangi og hafa verið síðustu árin vegna mikils átroðnings.

Sérstök gönguleyfi þarf nú til að klöngrast bratta stíga upp að Machu Picchu eftir hinni svokölluðu Inkaleið. Þau leyfi klárast fljótt og örugglega og allra best að tryggja sér leyfi sem allra fyrst á því ári sem slík ganga er fyrirhuguð. Aðeins fimm hundruð leyfi eru veitt hvern dag ársins nema í febrúar þegar leiðinni er lokað í heilan mánuð til að leyfa gróðri að jafna sig.

Það þýðir þó ekki að fimm hundruð ferðamenn fari hvern dag því um helmingur leyfanna eru gefin út fyrir leiðsögumenn og burðarfólk sem fylgja þarf velflestum hópum.

Inkaleiðin sem svo er kölluð, Camino Inca, er í reynd samheiti þriggja gönguleiða upp Andesfjöllin að sólhofi Machu Picchu. Um er að ræða Classic, Mollepata og One Day og ekki þarf  stærðfræðing til að átta sig á að 99 prósent ferðamanna taka Classic pakkann. Sá túr tekur frá fjórum og upp í sex daga og á leiðinni er fjölmargt að sjá og skoða. Burðarmenn sjá um að útbúa náttstað og mat hvert kvöld ferðarinnar og það eina sem ferðamaðurinn þarf að gera er í raun að dröslast upp fjöllin. Sem er hægara sagt en gert samkvæmt þeim er prófað hafa.

Gönguleyfin kosta líka sitt. Meðalverð fyrir árið 2019 á mann eru litlar 74 þúsund íslenskar krónur samkvæmt meðalgengi.

Hér má sjá hvaða dagar eru lausir fram eftir árinu sé áhugi á að skella sér í aðeins meiri ævintýri en golf á Spáni.