Það sparar töluverða peninga að vita hvenær og hvar skal prútta og gefa ekkert eftir

Hafðu í huga

 • Gakktu úr skugga um að prútt sé almennt viðtekin venja í umræddu landi. Nægir að forvitnast á hóteli eða hjá fararstjóra um slíkt. Notaðu heilbrigða skynsemi. Uppskeran af prútti hjá svissneskum úrsmið eða Walmart yrði aðeins hlátursgusa.
 • Hafðu í huga að forvitnast ekki um verð nema hugur fylgi máli. Víða utan hins vestræna heims sýna menn ekki áhuga á vörum nema áhugi á kaupum sé raunverulegur.
 • Kurteisi kemur þér langt og fylgja skal hefðum þar sem við á. Víða í Austurlöndum er til dæmis hefð að bjóða viðskiptavinum tebolla eða annað góðgæti til að ræða kaup. Kurteisi er að þiggja slíkt en það þýðir EKKI að þú sért skuldbundin til kaupa.
 • Alls EKKI nefna verð og vera ekki tilbúin að standa við það. Prútt snýst um heiður beggja þegar upp er staðið.
 • Stundum eru seljendur ekki reiðubúnir að prútta þó það sé viðtekin venja. Þá getur einfaldlega verið að prísinn sé sanngjarn.
 • Ekki er óeðlilegt að fá enn meiri afslátt séu keyptir fleiri en einn hlutur í einu.
 • Jafnvel þó þú brennir í skinninu yfir hlut sem þig hefur dreymt um í áratug máttu alls ekki láta skína í slíkan áhuga. Vanir sölumenn sjá alltaf á þér hversu mikið þig langar í hluti og færa upp verðið samkvæmt því.
 • Sölumenn margir eru vægast sagt ýtnir og oft ægilega uppáþrengjandi. Láttu þig hafa það. Ýtni er bara enn ein söluaðferðin sem ótrúlega oft virkar gagnvart fólki sem ekki stendur á sínu.
 • Gerðu þér grein fyrir að alls enginn söluaðili á markaði er að selja þér raunverulega Luis Vuitton tösku eða Ray Ban sólgleraugu. Nánast 100% allra merkjavara á öllum mörkuðum eru fals eða í besta falli stolnar vörur.
 • Að síðustu skal alltaf hafa í huga að þú ert yfirleitt að prútta á mörkuðum þar sem laun heimamanna eru brotabrot af þínum launum. Það er því ekkert að því að greiða hærra verð en heimamenn fá.

Prúttið sjálft

 • Gakktu út frá því að verðlagning á vörum sé oftast margfalt hærri en eðlilegt þykir. Reyndu að meta verðgildi þeirrar vöru sem þú hyggst bjóða í fyrirfram. Spurðu aðra sem keypt hafa eða þekkja betur til.
 • Hafðu aðeins þá upphæð á þér sem þú ert reiðubúinn að bjóða í hæsta lagi. Þannig kemurðu í veg fyrir að fá feitan Visa hausverk þegar heim er komið.
 • Gakktu um allan markaðinn áður en boð er lagt fyrir. Yfirleitt eru fleiri en einn aðili með svipaða eða sömu vöru og verð og gæði geta verið misjöfn.
 • Reyndu að sýna vörunni sem þig langar í eins lítinn áhuga og þér er unnt. Sölumenn á mörkuðum eru atvinnumenn fram í fingurgóma og gruni þá að þú sért að missa þig yfir einhverju hækkar verðið sem því nemur og vanir kaupmenn þefa uppi ríka vesturlandabúa á einni sekúndu.
 • Ekki hugsa um að reyna að græða á slíku harki. Langflestir sölumenn á mörkuðum taka ferðalanga eins og þig í nefið án þess að blikka auga. Prúttið snýst um að báðir fái nokkuð fyrir sinn snúð og fari sáttir sína leið.
 • Taktu með þér vin eða maka. Sölumenn eiga erfiðara um vik að telja tveimur trú um góðan díl og vinurinn veitir andlegan stuðning. Klæddu þig fálega Geymdu minkapelsinn og gulleyrnalokkana heima. Það sést langar leiðir hvort þú átt pening eður ei og líti út fyrir það hækkar verðið.
 • Kaupendur skulu vera viðbúnir að labba út ef hugmyndir um verð eru út í hróa. Það er oft þegar baki er snúið í sölumenn sem þeir kasta fram sínum allra besta prís.
 • Forvitnastu um verð á tveimur eða þremur hlutum í einu til að dreifa athygli sölumanna.
 • Fyrsta boð skal vera nokkuð lægra en þú ert búin að ákveða að greiða mest fyrir. Þetta er tíminn til að nefna að varan sé ekki "alveg" það sem þú sért að leita að eða að þú teljir galla vera á vörunni.
 • Óþarfi er að keyra sig alveg í tætlur við prútt. Aldrei gleyma að sölumaðurinn þarf að fæða fjölskyldu sína líka.