Mikið væri nú gaman ef forsvarsmenn Ryanair, easyJet eða Norwegian myndu nú bjóða landslýð á Íslandi upp á beint flug til Tenerife. Því miður er það svipað líklegt og að Bear Stearns bjóði Íslendingum upp á fjármálaþjónustu.

Einu samkeppnisaðilarnir til Kanaríeyja fyrir okkur Íslendinga. Samsett mynd

Kannski einn góðan veðurdag tekur Erlendur forstjóri eftir að Íslendingar elska sínar Kanaríeyjar og eru ekki alveg að fá sitt fyrir snúðinn með innlendum aðilum. Þangað til verðum við að sætta okkur við flug með Wow Air eða Primera Air ef hugurinn leitar til Kanaríeyja að sumarlagi. En hvor þessara aðila er að bjóða betur sumarið 2017?

Við verðum að hryggja aðdáendur „lággjaldaflugfélagsins“ Wow Air með þeim fregnum að þegar þetta er skrifað er Primera Air að bjóða lægsta verð aðra leið til Tenerife alla sumarmánuðina 2017 samkvæmt úttekt Fararheill.

Þetta sést glögglega á meðfylgjandi töflu og munurinn næsta sláandi eða hartnær 30 prósent dýrara með Wow Air en Primera Air þegar verst lætur. Hér ágætt að muna að ekki má tyggjó vera í vasa farþega Wow Air án aukagjalds en hjá Primera Air býðst farþegum að grípa með 10 kílóa handfarangur. Og hver þarf svo sem meira en sundskýlu og tvær, þrjár aukanærur með til Tene?

* Úttekt gerð kl. 22 þann 9. mars 2017 hjá báðum aðilum samtímis. Leitað að lægsta fargjaldi aðra leið til Tenerife án farangurs í júní, júlí og ágúst.