Við erum vissulega dálítið snemma í því. En fyrir því margar góðar ástæður og veigamest sú að með þeim hætti er hægt að tryggja lægsta verð á flugi og gistingu svo þú getir eytt peningunum í eitthvað skemmtilegt.

Ritstjórn hefur lengi undrast takmarkað úrval ferða með leiðsögn til Andalúsíu á Spáni. Nóg er af pakkaferðum á strendurnar en eins og lesendur vorir vita á slíkt ekki við neinn hér. Það er ekkert gaman að svitna undir sól dögum saman þegar matur, menning, listir og ýmis konar dásemdir aðrar er allt um kring. Nei, enginn hjá Fararheill ferðast til þess eins að fá sól á kroppinn og ódýran bjór á barnum. Við þurfum töluvert meira en það og við höldum að fleiri séu á þeirri skoðun.

Hér að neðan má sjá grófa ferðalýsingu. Um er að ræða tólf daga túr um marga fallega og sérstaka staði og auðvitað gætum við þess vel að afslöppun sé stór hluti af pakkanum. Alltof oft kemur Íslendingurinn heim úr Spánarferð stressaðri en þegar hann fór út.

Sem fyrr skal hafa í huga að hér er aðeins um skipulagða leiðsögn að ræða. Flug er ekki innifalið enda Fararheill ekki ferðaskrifstofa. Við hjálpum þér hins vegar með flugið, tökum móti þér þegar þú lendir, græjum gistingu og túra og reynum okkar besta til að þú fáir notið Andalúsíu yfir páskana 2016.

Ágætt að hafa í huga að yfir páskana er töluvert meira um að vera í flestum borgum og bæjum Spánar en annars. Meira líf, meira gaman.

MALAGA


Við sækjum þig á flugvöllinn og keyrum þér á hótelið. Þegar allir hafa skilað sér mætum við á hótelið aftur og drögum hópinn í göngutúr um miðborg Malaga. Sú er ekki skemmtilegasta borg Spánar en ekki leiðinleg heldur. Eftir góðan túr í góðu tómi til að gefa fólki sens fyrir hvernig miðbærinn liggur setjumst við inn á ekta spænskan veitingastað, njótum matar og drykkjar saman og hristum hópinn vel saman. Að því loknu fer það eftir skapi og stemmningu hvort við höldum aðeins út á lífið eða látum gott heita.

Gestir taka sér tíma morguninn eftir til að sofa út eða spássera um eftir vild. Við mætum svo aftur í tæka tíð fyrir síestu, 14:00, og förum aftur saman á vappið. Við finnum okkur góðan veitingastað og njótum þess að vera til. Seinnipart höldum við svo í verslunartúr. Þá förum við um helstu verslunargöturnar og bendum á þá staði þar sem góð kaup má gera. Nógur tími til stefnu og stressi ekki fyrir að fara.

Síðar um kvöldið tökum við stefnuna á góðan bar til að hita upp fyrir enn betri kvöldverð. Aftur njótum við félagsskapar hvors annars nema einhverjir hafi óskir um annað. Höldum í sæng þegar líða fer á nóttina.

RONDA


Um hádegisbil pökkum við föggum í smárútuna okkar og höldum af stað til bæjarins Ronda í um tveggja stunda fjarlægð. Við reyndar ökum rólega og förum lengri leiðina til að gefa aðeins bragð af hinni raunverulegu Andalúsíu.

Í Ronda tékkum við inn á gott hótel saman og höldum svo í léttan bæjartúr í kjölfarið. Ronda er fræg fyrir tvennt. Annars vegar að standa við þverhnípi gljúfurs eins sem ber nafn borgarinnar. Hins vegar fyrir ást Ernest Hemingways á staðnum á sínum tíma. Hér er töluvert að sjá og njóta og það á tiltölulega litlum og þægilegum bletti.

SEVILLA


Eftir góðan nætursvefn og morgunverð í Ronda hoppum við aftur upp í rútuna okkar og ferðinni nú haldið til hinnar stórkostlegu Sevilla.

Varla þarf að fara mörgum orðum um frægð þeirrar yndislegu borgar sem er svo kjaftfull af merkum sögum, byggingum og arkitektúr og litríku mannlífi að hið hálfa væri nóg.

Hér komum við okkur fyrir á góðu íbúðahóteli og fyrsta kvöldið förum við í góðan göngutúr um miðborgina. Þegar kvölda tekur setjum við stefnuna á einn af mörgum fyrsta flokks veitingastöðum og höfum gaman saman. Næturlífið bíður þeirra sem áhuga hafa að halda aðeins áfram og þar líka af nógu að taka.

Daginn eftir höldum við aftur á rúntinn en nú liggur leiðin meðfram Guadalquivir ánni áður en við höldum áfram að stika stóran miðbæinn. Það er sannarlega af ýmsu að taka hér og við tökum það allt inn í rólegheitum.

Um kvöldið höldum við á góðan veitingastað og enn síðar njótum við flamenco dansa að hætti heimamanna áður en við segjum þetta gott.

Við eigum einn dag til í Sevilla og sá er galopinn. Sé vilji til að versla er það hægt. Sé vilji til að skoða meira er það hægt. Ef einhver vill kíkja í golf eða siglingu er lítið mál að verða við því. Við aðstoðum alla við að finna eitthvað skemmtilegt þann daginn.

FUENGIROLA

Þennan daginn kveðjum við Sevilla með virktum og höldum af stað áleiðis til strandborgarinnar Fuengirola sem notið hefur mikilla vinsæla ferðamanna undanfarin ár. Ástæða fyrst og fremst fyrirtaks strendur og hér eyðum við tveimur dögum á góðu hóteli við ströndina. Tökum nettan túr um þessa borg sem er þó aðeins of gegnsýrður af túrisma til að vera mjög yndisleg. En ströndin er príma og nóg við að hafa til að njóta.

MALAGA


Frá Fuengirola ökum við meðfram ströndinni til Malaga á nýjan leik og komum við í einni af betri verslunarmiðstöðvum borgarinnar sem liggur aðeins utan við borgina. Hér eigum við eina nótt til áður en komið er að leiðarlokum. Dagurinn frír að mestu leyti en fyrir þá sem vilja höldum við kveðjuhóf á einum af betri veitingastöðum borgarinnar.

Daginn eftir keyrum við þeim er þess óska út á flugvöll en auðvitað getur fólk lengt í dvölinni eftir behag. Við getum aðstoðað við það sé þess óskað.

  • Innifalið er allur akstur, gisting á góðum þriggja stjörnu hótelum, leiðsögn og hjálp hvers kyns.
  • Flug ekki innifalið en margar leiðir til að komast hingað á ódýran hátt og við aðstoðum við það eins og annað.
  • Áhersla verður á að snæða og njóta á ekta spænskum stöðum og taka inn spænska menningu umfram allt annað.
  • Rútuferðir stuttar þrátt fyrir lengri leiðina og gjarnan stoppað við aðra áhugaverða staði á leiðinni sem ekki eru hér taldir. Ekkert neglt í stein.
  • Hámarksfjöldi er tólf manns og fýlupokar bannaðir.
  • Nánari dagsetningar og upplýsingar um hótelin fást þegar tilskilinn fjöldi hefur lýst áhuga.
  • Fararstjórar eru tveir og báðir íslenskir. Báðir með mikla reynslu af ferðum um þessar slóðir og þykja báðir þokkalega skemmtilegir.
  • Verð fer eftir gengi evru gagnvart krónu þegar tilskildum fjölda er náð. Gróflega má gera ráð fyrir að kostnaðurinn verði kringum 285 þúsund krónur á par eða 142 þúsund krónur á mann.
  • Áhugasamir sendi upplýsingar til fararheill@fararheill.is og við verðum í sambandi í kjölfarið.