Þann tólfta apríl næstkomandi leggur glæsilegt skemmtiferðaskip MSC skipafélagsins úr höfn frá Havana á Kúbu og siglir áleiðis alla leið til Þýskalands með ýmsum fínum stoppum á leiðinni. Þessi heillandi 25 daga túr fæst niður í 175 þúsund krónur á mann í innriklefa eða 275 þúsund í káetu með svölum.

Tuttugu og fimm daga rúntur með þessu skipi hljómar ekki mjög illa. Mynd MSC
Tuttugu og fimm daga rúntur með þessu skipi hljómar ekki mjög illa. Mynd MSC

Það er fjarri því dýr túr og ferðalýsingin yfirþyrmandi góð. Frá Havana er siglt milli karabísku eyjanna Jamaíka, Curacao, Aruba og Barbados áður en haldið er út á rúmsjó. Næsta stopp þar á eftir er Tenerife, svo Funchal á Madeira, Lissabon í Portúgal, áfram til Vigo á vesturströnd Spánar, upp til Cherbourg í Frakklandi, áð stundarkorn í Dover á Englandi áður en förinni er framhaldið til Kaupmannahafnar og svo komið í lokahöfn í Warnamunde í Þýskalandi að lokum.

Þetta hljómar allt vel ekki satt? En að ýmsu ber reyndar að hyggja. Flug er ekki innifalið. Fólk verður sjálft að koma sér til Kúbu og heim til Íslands frá Þýskalandi. Flug frá Þýskalandi fæst niður í 20 þúsund á haus bóki fólk með góðum fyrirvara en líklega þarf að greiða 60 til 70 þúsund að lágmarki fyrir Kúbuflug frá Evrópu.

Þá er þetta ekki allt-innifalið túr heldur. Matur innifalinn auðvitað en ekkert annað. Í löngum túr getur aukakostnaður hlaðist upp eins og vanir vita.

Þrátt fyrir það gæti par eða hjón rúllað í þennan pakka niður í 700 þúsund krónur eða svo miðað við ódýrustu káetu þegar helsti kostnaður er saman tekinn. Það ekki sérlega dýrt fyrir næstum mánaðarlanga siglingu milli heimsálfa.

Meira um þetta hér.