Skáldin Einar Benediktsson og George Orwell eiga í það allra minnsta eitt sameiginlegt fyrir utan skáldskap á heimsmælikvarða. Báðir eyddu síðustu æviárunum fjarri glaum og glysi á afskekktum slóðum. Einar vitaskuld í Herdísarvík í Selvogi en Orwell í einangrun á skosku eyjunni Jura.

Þessi mynd gæti vel verið tekin á farsældar Fróni. Hún er hins vegar tekin í eynni Jura við Skotland. Mynd Jon Cage
Þessi mynd gæti vel verið tekin á farsældar Fróni. Hún er hins vegar tekin í eynni Jura við Skotland. Mynd Jon Cage

Eyjan atarna er ein af allnokkrum eyjum við vesturströnd Skotlands og er ein fámennasta eyja þess ágæta lands. Íbúatala við síðustu mannfjöldakönnun aðeins 188 hræður.

En Jura státar af ýmsu forvitnilegu. Hér var hin heimsfræga skáldsaga 1984 skrifuð af George Orwell í litlu afskekktu timburhúsi við norðurenda eyjarinnar en hér dvaldi skáldið fræga síðustu æviár sín áður en hann lést úr berklum á sjúkrahúsi. Það eitt nægir til að hingað koma aðdáendur skáldsins enn þann dag í dag til að berja fátækleg híbýli hans augum.

Ekki nóg með það heldur er Jura þekkt í röðum vatnsáhugamanna víða um heim en þar finnst ein allra öflugasta hringiða sem vitað er af í sjó og sú sjón dregur líka töluvert af ferðafólki út í eynna til að berja svelginn augum. Sá finnst í Corryvreckan flóa en svelgurinn sést þó aðeins við ákveðnar aðstæður.

Ekki síst er skemmtilegt að nafn eyjunnar er talið komið af orðinu hjörtr, hjörtur, enda er mikill fjöldi hreindýra sem um eyjuna flakka. Er það einmitt aðal atvinnuvegur þeirra fáu sem hér búa að lóðsa veiðimenn um lendur Jura ár hvert.