Eflaust hefðu fáir heilvita menn geð til að stinga sér ofan í sundlaug sem í væru þungmálmar, seyra, ókunnug ertandi eiturefni og undarleg bleikleit kvoða hér og þar í lauginni. Þetta bíður þín ef þú dembir þér í sjóinn við Flórída þessa dagana.

Nei takk, ómögulega. Margar strendur Flórída útbíaðar í eiturefnum og viðbjóði þessa dagana. Mynd Flylife
Nei takk, ómögulega. Margar strendur Flórída útbíaðar í eiturefnum og viðbjóði þessa dagana. Mynd Flylife

Kaninn er meistari að hugsa hlutina ekki til enda og er gnótt dæma um slíkt. Íraksstríðið ágætt dæmi nú eða eilífar skattalækkanir á þá ríku. Svo ekki sé minnst á allt þetta bláfátæka fólk sem er að missa sig yfir milljarðamæring og 100 prósent skíthæl sem ber nafnið Donald Trump.

Sömuleiðis er náttúran eða loftslag ekki hátt skrifað hjá þarlendum yfirvöldum. Sem er ástæða þess að verksmiðjur víða í Flórída hafa um áratugaskeið hent úrgangi og öðrum viðbjóð beint út í Okeechobee vatnið í miðju fylkinu.

Enginn hafði miklar áhyggjur af því þangað til það fór að rigna óvenju mikið í fylkinu í haust sem leið. Síðan þá hefur rignt meira í Flórída en dæmi eru um í tæp 70 ár. Sem aftur varð til þess að vatnsborð Okeechobee hækkaði jafnt og þétt og svo fór síðasta vetur að vatnshæðin fór að ógna nálægum byggðum.

Verkfræðingar bandaríska hersins voru kallaðir til í snarhasti og úr varð að hleypt var úr Okeechobeevatni eftir skurðum bæði til vesturs í Mexíkóflóann og til austurs í Atlantshafið.

Ekki hafði Kaninn hugsað það til enda heldur. Snarmenguðu vatni frá Okeechobee hefur nú skolað á land á velflestum sólarströndum Flórída og breiður af rauðum eitruðum þörungum finnast um allan Flórídaskaga. Það og dauðir fiskar sem flotið hafa á land í töluverðum mæli.

Ósmekklegt vægast sagt og því eitursnjallt að láta hótelsundlaugina duga ef þú ert á ferð um svæðið á næstunni.